Almennur hluti aðalnámskrár framhaldsskóla kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi. Í námskránni er fjallað um hlutverk aðalnámskrár, almenna menntun og grunnþætti, mat á skólastarfi, nýjar áherslur og nýtt skipulag við námskrárgerð á framhaldsskólastigi, samstarf, réttindi, skyldur, skólanámskrá og fleira.

Framhaldsskólinn sinnir margþættu hlutverki. Hann á að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Honum er einnig ætlað að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Innan veggja framhaldsskólans gefst nemendum því kostur á að velja sér fjölbreyttar námsleiðir sem veita margs konar undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms. Náminu lýkur með mismunandi námsgráðum, svo sem framhaldsskólaprófi, prófi til starfsréttinda, stúdentsprófi, iðnmeistaraprófi eða með öðru lokaprófi. Námsbrautarlýsingar á framhaldsskólastigi taka mið af þessum mikla fjölbreytileika. Þær þurfa að mæta kröfum atvinnulífs og næsta skólastigs, um leið og þær veita nemendum alhliða almenna menntun.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008, færist ábyrgð á námskrárgerð í auknum mæli til framhaldsskólanna. Þeim er nú falið að gera tillögur um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms í samræmi við viðmið, sniðmát og reglur um gerð námsbrautarlýsinga. Með þessu er framhaldsskólum gefið aukið umboð til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skóla, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs. Þetta skipulag á jafnframt að veita skólum tækifæri til að bregðast markvisst við þörfum nemenda, samfélags og atvinnulífs, niðurstöðum rannsókna og gæðaeftirlits. Tillögur um námsbrautir þurfa staðfestingu ráðuneytis til að verða hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Í nýrri námskrá er öllu námi í framhaldsskóla skipað á fjögur hæfniþrep sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Þrepin lýsa stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar fagmennsku. Námslok námsbrauta eru tengd við hæfniþrep. Lokamarkmið námsbrauta kallast hæfniviðmið og segja til um þá hæfni sem stefnt er að nemendur búi yfir við námslok. Við uppbyggingu námsbrauta skulu framhaldsskólar fylgja reglum ráðuneytis en þær birtast meðal annars í almennum hluta aðalnámskrár.

Á framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að taka upp nýtt einingamatskerfi, framhalds-skólaeiningar, sem gefur möguleika á að meta vinnu nemenda í öllu námi. Framhalds-skólaeining (fein.) er mælikvarði á vinnuframlagi nemenda í framhaldsskólum óháð því hvort námið er verklegt eða bóklegt og hvort það fer fram innan skóla eða utan. Hver eining samsvarar u.þ.b. þriggja daga vinnu nemenda (6-8 klst/dag).