15

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á að við allt mat sé fyrst og fremst litið til hæfni nemenda. Öllu námi framhaldsskólans er raðað á hæfniþrep. Þar sem framhaldsskólar skipuleggja sjálfir námsbrautir sínar er gert ráð fyrir að þeir geri nemendum kleift að velja ólíkar leiðir til að ná hæfniviðmiðum hvers þreps. Að jafnaði skal viðtökuskóli miða við mat þess skóla sem nemendur koma úr þegar litið er til þess hvort viðkomandi hæfniþáttum sé náð.

  • Raunfærnimat er skipulegt ferli þar sem alhliða reynsla og þekking nemanda er metin með formlegum hætti. Matið getur byggst á fyrra námi, starfsreynslu og annarri reynslu sem aflað hefur verið utan formlega skólakerfisins. Raunfærnimat getur leitt til þess að nemendur teljist hafa lokið námi í einstökum áföngum og/eða að þeir fái styttingu á þeim hluta námsins sem fer fram í verklegri þjálfun á vinnustað.

    Raunfærnimat nýtist einkum þeim sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi, hafa starfað á vinnumarkaði í a.m.k. þrjú ár og náð tuttugu og þriggja ára aldri að lágmarki og aflað sér þekkingar, leikni og hæfni í störfum á tilteknu sviði sem nýst getur í námi til lokaprófs. Í löggiltum iðngreinum er gerð krafa um fimm ára starfsreynslu á vinnumarkaði að lágmarki og að einstaklingur hafi náð tuttugu og fimm ára aldri. Umsækjandi um raunfærnimat skal leggja fram nauðsynleg gögn sem styðja umsóknina, svo sem námssamning, vottorð vinnuveitenda studd lífeyrissjóðsyfirliti, yfirlit um nám eða námskeið eða aðrar upplýsingar sem geta nýst við mat á umsókn.