6

Fjölbreytt námsumhverfi sem er hvetjandi og styðjandi fyrir nemendur er ein forsenda þess að nemendur eigi þess kost að ná þeim þáttum lykilhæfni sem til dæmis lúta að sjálfsþekkingu, sjálfstæði, frumkvæði og skapandi hugsun. Starfshættir við nám og kennslu geta einnig haft mikil áhrif við mótun nemenda og ýtt undir að þeir tileinki sér gagnrýna hugsun, virðingu og umburðarlyndi, lýðræðislega virkni, jafnrétti og ábyrgð í samskiptum og umgengni við umhverfi og náttúru. Viðfangsefni sem tengja nám við daglegt líf og starfsvettvang stuðla að auknu læsi nemenda á umhverfi sitt.

  • Náms- og kennsluhættir í framhaldsskólum stuðla að alhliða þroska nemenda og einkennast af virðingu fyrir einstaklingnum og þörfum hans. Mikilvægt er að skólastarf miði að því að gera nemendur virka og sjálfstæða í námi sínu og færa um að afla sér þekkingar á eigin spýtur. Kennsluhættir þurfa að veita öllum nemendum tækifæri til að nýta hæfileika sína og gefa þeim kost á að fá endurgjöf á vinnu sína. Áhersla á hæfni nemenda að loknu námi krefst þess að nýttar séu fjölbreyttar leiðir til að meta hæfni nemenda og veita þeim leiðsögn í átt að settu marki.

    Fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum er ein forsenda þess að nemendur öðlist margvíslega hæfni. Mikilvægt er að hafa í huga að mismunandi hæfniviðmiðum er hægt að ná á margvíslegan hátt og að sömu aðferðir henta ekki öllum nemendum jafnvel. Þá mega kennsluhættir ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum, kynhneigð eða félagslegri stöðu.

    Til að öðlast lykilhæfni þurfa nemendum að gefast ríkuleg tækifæri til að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengja má starfsumhverfi og daglegu lífi. Í öllu skólastarfi, bæði í og utan kennslustunda, þarf að styrkja nemendur til að móta sér skoðanir, viðhorf og hæfni bæði almennt og á tilteknum sviðum. Þetta gerir kröfu um að nemendur samþætti þekkingu sína og leikni, um leið og þeir fái tækifæri til að þjálfa félagshæfni, sem byggir á siðgæði og virðingu fyrir mannréttindum og jafnrétti. Gæta verður þess einnig að nemendur æfist í að tjá skoðanir sínar og skýra verklag á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt. Náms- og kennsluumhverfi starfsnámsnemanda þarf að vinna að því að nemendur verði virkir og ábyrgir fagmenn sem búa yfir góðri fagmennsku.