8

Við þróun námsframboðs leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á að ljúka námi af námsbrautum sem skilgreindar eru á ólík hæfniþrep. Enn fremur er lögð áhersla á að nemendur sem ljúka námi á fyrstu þrepum framhaldsskólans gefist kostur á áframhaldandi námi.

Hér að neðan er fjallað almennt um mismunandi gerðir námsloka en nánari lýsingu má sjá í viðauka 2. Skólar gefa út prófskírteini til staðfestingar námslokum (sjá einnig kafla 11.3).

  • Framhaldsskólaprófi er ætlað að koma til móts við þá áherslu að nemendur njóti fræðslu-skyldu til 18 ára aldurs og að framhaldsskólarnir bjóði upp á menntun sem henti þörfum hvers og eins. Einnig er því ætlað að koma til móts við þarfir nemenda sem ekki hyggja á önnur námslok. Þannig getur skóli hvort sem er tengt framhaldsskólapróf við lok skilgreindrar námsbrautar eða tengt það annarri þátttöku nemandans í skólanum sem sniðin er að einstaklingsbundnum þörfum hans. Þó skulu lokamarkmið námsins í öllum tilvikum vera skýr.

    Framhaldsskólapróf geta hvort sem er verið skilgreind á fyrsta eða annað hæfniþrep en það ræðst af því hvaða kröfur eru gerðar um þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Viðfangsefni námsins getur flokkast sem starfsnám, listnám eða bóknám en vinnur að þeim markmiðum sem einkenna hæfniþrep námsins.

    Umfang náms til framhaldsskólaprófs fer eftir lokamarkmiðum námsins en skal alltaf vera á bilinu 90-120 fein. Ef vilji er til að námsbraut ætluð nemendum með þroskahömlun ljúki með framhaldsskólaprófi gilda sömu reglur um umfang.

    Framhaldsskólaprófinu lýkur með útgáfu prófskírteinis þar sem kemur fram hæfniþrep námsloka, umsögn um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemandans, upptalning áfanga, einkunnir eftir því sem við á og skrá um aðra þátttöku nemandans í viðfangsefnum tengdum framhaldsskólaprófinu.