2

Skilgreining á almennri menntun er ekki einhlít. Hún er bundin við stund og stað og jafnvel einstaklingsbundin. Til forna mynduðu hinar sjö frjálsu listir umgjörð um almenna menntun yfirstéttarinnar. Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum og með iðnbyltingunni kom fram ný tækni og fræðasvið sem lögðu grunn að almennri menntun í nútímasamfélagi. Á 21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna.

Almenn menntun stuðlar á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Almenn menntun miðar að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklingsmiðuð og samfélagsleg.

Almenna menntun öðlast fólk víðar en í skólakerfinu. Skólakerfið er þó mikilvægasti grundvöllur þess að samfélagið tryggi almenna menntun. Því er eðlilegt að skýra grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og tengja þá meginsviðum þekkingar og leikni sem einstaklingum standa til boða í skólunum. Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.

  • Nútímasamfélag gerir margar og oft mótsagnakenndar kröfur til þegnanna. Hlutverk skóla­kerfisins er m.a. að búa einstaklinginn undir áskoranir og verkefni daglegs lífs og hjálpa honum að fóta sig í flóknu samhengi náttúru og samfélags, hluta og hugmynda. Almenn menntun miðar að því að efla sjálfsskilning einstaklingsins og hæfni hans til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Nemendur þurfa að vita hvað þeir vita og hvað þeir geta og vita hvernig best er að beita þekkingu sinni og leikni til að hafa áhrif á umhverfi sitt og bæta það. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði.

    Nemandinn þarf ekki einungis að búa yfir þekkingu leikni og hæfni heldur skal hann einnig geta aflað sér nýrrar þekkingar, leikni og hæfni, greint hana og miðlað. Nám þarf að taka til allra þessara þátta. Slíkt nám byggist á námssamfélagi sem einkennist af grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.

    Við skipulag skólastarfs skal lögð áhersla á nám og menntun barna og ungmenna og hæfni þeirra að námi loknu. Kennsluaðferðir og samskiptahættir, námsgögn og kennslutæki beinast fyrst og síðast að því að styðja nemendur í námi sínu. Námsmarkmið snúa að þeirri hæfni sem nemandinn öðlast í námsferlinu og býr yfir að námi loknu.

    Skólastarfi og námi, sem skilgreint er út frá grunnþáttum menntunar, er sinnt innan námssviða, námsgreina og námsáfanga. Á hinn bóginn krefjast mörg viðfangsefni þess að þau séu unnin á samfaglegan og heildstæðan hátt. Í aðalnámskrá hvers skólastigs eru grunn­þættirnir útfærðir nánar. Þar er svigrúmi í skólastarfinu lýst og greint frá hlutverki kennara á hverju skólastigi. Þar er einnig rætt um samstarf skóla við heimilin.

    Grunnþættir menntunar eru útfærðir á hverju skólastigi í samræmi við markmið laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í aðalnámskrá leikskóla eru grunnþættir fléttaðir saman við námssvið leikskólans, í grunnskólum tengjast grunnþættirnir námsgreinunum og á framhaldsskólastigi eru grunnþættir menntunar útfærðir í námsáföngum á mismunandi námsbrautum. Grunnþættirnir eru því útfærðir með ólíkum hætti á mismunandi skólastigum. Í námskrám skólastiganna er fjallað nánar um samfellu og viðfangsefni, stígandi í námi, hæfnikröfur og þrepaskiptingu í samræmi við sérkenni og starfshætti á hverju skólastigi.