1

Aðalnámskrá byggir á lögum um leikskóla (nr. 90/2008), grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008). Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum.

Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla. Segja má að aðalnámskrá sé samningur þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál.

  • Skólar eru menntastofnanir og hlutverk þeirra er skilgreint í löggjöf um menntun. Skólar landsins mynda samstæða heild, skólakerfi, sem tryggja skal samræmi og samhengi í menntun frá leikskólum til háskóla og fullorðinsfræðslu. Lögð er áhersla á heildstæða menntastefnu en skýr skil á milli skólastiga þannig að nemendur geti flust eðlilega á milli leikskóla og grunnskóla og á milli grunnskóla og framhaldsskóla í samræmi við einstaklingsbundna námsstöðu og þroska. Einnig skulu nemendur eiga þess kost að stunda nám á tveimur skólastigum samtímis henti það námi þeirra. Á hverju skólastigi er stefnt að fjölbreyttum viðfangsefnum og starfsháttum til að koma til móts við mismunandi námsþarfir ólíkra einstaklinga og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

    Meginhlutverk leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er að stuðla að almennri menntun þegnanna. Skólarnir skulu leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir barna og ungmenna. Skólastarfið miðar að virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi innan skólans og utan.

    Inntak og viðfangsefni skólastarfsins er sett fram í námssviðum, námsgreinum eða náms­áföngum. Rétt er að hafa í huga að námssvið, námsgreinar og námsáfangar eru ekki markmið í sjálfu sér heldur hjálpartæki til að stuðla að merkingarbæru námi og ná markmiðum skólastarfsins. Í aðalnámskrám skólastiganna eru því skilgreind markmið í samræmi við sérkenni hvers skólastigs, aldur og þroska barna og ungmenna.

    Í skipulagi og viðfangsefnum skólastarfsins og í starfsháttum skólanna skal lögð rækt við námsumhverfi og samskipti sem stuðla að almennri menntun. Almenn menntun er grund­völlur starfsmenntunar og annarrar sértækrar menntunar. Nám og menntun á sér stað víðar en í skólum. Menntun er ævilangt ferli. Mikilvægt er að skólarnir styðji við námshvöt nemenda sinna, rækti námsgleði og vinnuanda og stuðli þannig að menntun þeirra.

    Starfshættir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og samskipti barna og ungmenna innbyrðis og við kennara sína eru ekki síður en viðfangsefni kennslustunda mikilvæg til að ná markmiðum skólanna og stuðla að velferð, námi og menntun. Starfshættir skólanna skulu mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð.