Það kom upp villa senda inn  Áfangi

    Áfangi Nánari upplýsingar


    Búið til: 1325671769

    Útivist og umhverfisskoðun
    JARÐ2ÚV05
    1
    jarðfræði
    útivist og umhverfisskoðun
    Samþykkt af skóla
    2
    5
    Í þessum áfanga í útivist og umhverfisskoðun er markmiðið að flétta saman vettvangsvinnu í jarðfræði, landafræði og líkams- og heilsurækt. Nemendur læra um útivist, útbúnað fyrir gönguferðir í íslenskri náttúru um leið og hugað er að þeim ferlum sem eru að verkum á og undir yfirborði jarðar. Með þessari samtvinnun er reynt að skapa áhuga og skilning á umhverfi og útvist. Nemendur eru þjálfaðir í að lesa í landið, afla sér þekkingar með heimildavinnu og setja fram niðurstöður. Fræðileg umfjöllun greinarinnar tengir forsendur útivistar og þau ummerki sem eru hvarvetna sýnileg í landslaginu í kringum okkur í merkingarbæra heild. Fjallað er um almennar staðreyndir í landafræði og jarðfræði og byggt á því námi sem þátttakendur hafa þegar lokið. Meðal þess sem fjallað er um er: undirbúningur fyrir ferðalög og útbúnaður sem nauðsynlegur er; ferðaáætlanir og mat á aðstæðum; viðbrögð við óvæntum atvikum; kort og fjarkönnunargögn; svæðahugtakið, afmörkun svæða og skilningur á hvað þar er að finna; innræn öfl, uppruni og afleiðingar; sérstaða Íslands í jarðfræðilegu tilliti; eldfjallafræði, eldvirkni, flokkun bergs, eldstöðva og hrauna; útræn öfl, uppruni og afleiðingar; veðrun og rof. Grundvallarnálgun viðfangsefnisins snýst um að nemendur verði færir um að skipuleggja og búa sig til gönguferða, fái holla hreyfingu og augu þeirra opnist fyrir gildi útivistar í náttúru Íslands. Um leið er þeim hjálpað til að öðlast yfirsýn og þekkingu á þeim jarðfræðilegu lögmálum sem hvarvetna má sjá ummerki um. Með vettvangsferðum og heimildavinnu er leitast við að opna augu nemenda fyrir lögmálum jarðfræðinnar og auka skilning á því hvernig innræn og útræn öfl setja mark sitt á landslagið. Lífvana hluti jarðar í daglegu umhverfi nemendanna er settur í víðara samhengi og þannig reynt að gera þá meðvitaða um hvað og hvers vegna náttúrulegt umhverfi er eins og raun ber vitni og hvernig er líklegt að það þróist. Takmarkið er að gera nemendur læsa á umhverfið og þannig auka yfirsýn og skilning sem geti leitt til meðvitundar um og virðingar fyrir náttúrulegum ferlum. Jafnframt tengja nemendur grunnþekkingu við raunverulegar aðstæður og auka þannig færni sína til frekara náms og skilnings í jarðfræði og landafræði. Nokkuð verður um efnistök og vinnu á fyrsta þrepi og einnig talsvert á þriðja þrepi en meginhluti áfangans telst vera á 2. þrepi. Kennsluaðferðir og nálgun á viðfangsefnum miðar að auknu sjálfstæði og ábyrgð nemenda.
    Eitt ár í íþróttum og jarðfræði/náttúrufræði í framhaldsskóla
    Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
    • forsendum útivistar og uppbyggingu ferðaáætlana
    • mikilvægi næringar, hvíldar og virkni í tengslum við gönguferðir úti í náttúrunni
    • nauðsynlegum útbúnaði, klæðnaði og réttri líkamsbeitingu við útivist
    • notagildi jarðfræðilegrar þekkingar og mikilvægi hennar til skilnings á umhverfinu
    • samspili innrænna og útrænna afla og hvernig þekkja má ummerki eftir þau
    • hvernig eldvirkni, yfirborðsaðstæður og bergtegundir skapa ólík jarðfræðileg fyrirbæri
    • roföflunum og hvernig ólík öfl móta landið og skilja eftir sig greinanleg ummerki
    Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
    • afla sér upplýsinga um útivist og umhverfi og útbúa raunhæfa ferðaáætlun
    • útbúa sig til ferða og fara um í íslenskri náttúru og veðurfari af öryggi og virðingu
    • beita hugtökum jarðfræði og landafræði á skilmerkilegan hátt og í rökrænu samhengi
    • greina ummerki innrænna og útrænna afla við landmótun og álykta um þau
    • greina einstök náttúrufyrirbæri á víðavangi eftir útliti og eðli og geti nýtt fræðilega þekkingu sína við flokkun og túlkun jarðfræðilegra fyrirbæra
    • nýta sér möguleika til heilsuræktar í nánasta umhverfi og úti í náttúrunni
    Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
    • velja búnað fyrir gönguferðir í samræmi við aðstæður (klæðnað, næringu o.s.frv.)
    • taka þátt í útivist þar sem krafist er sérstaks búnaðar, sé fær um að meta ástand og geti breytt áætlunum af öryggi ef aðstæður breytast
    • geta lesið í umhverfi sitt og flokkað, aðgreint og tengt atriði eftir aðstæðum og samhengi
    • nota sjálfstæð og öguð vinnubrögð, vera virkur í gagnaöflun, leggja sjálfstætt mat á upplýsingar við úrvinnslu og setja fram niðurstöður í rökræðu, bæði munnlega og skriflega
    • draga ályktanir um ólíkar aðstæður á Íslandi varðandi landslag og jarðmyndanir
    • tengja undirstöðuþætti útivistar, landafræði og jarðfræði við umhverfi sitt og fjalla á rökrænan hátt um mikilvægi og notagildi þeirra fyrir daglegt líf
    Símatsáfangi