Í þessum áfanga í almennri jarðfræði er fengist við innræn og útræn öfl. Unnið verður að því að skapa þekkingu á þeim ferlum sem eru að verkum á og undir yfirborði jarðar. Fræðileg umfjöllun greinarinnar verður tengd við þau ummerki sem hvarvetna eru sýnileg í landslaginu í kringum okkur og þannig reynt að skapa áhuga og skilning á umhverfinu og notagildi jarðfræðiþekkingar í leik og starfi. Fjallað er um aðferðafræði, hjálpargögn og sögulega þróun í jarðfræði. Sérstaða og grunnhugtök eru kynnt: Staðfræði Íslands,innræn öfl, uppruni og afleiðingar, innri gerð jarðar, landrek, flekakenningin, sérstaða Íslands í jarðfræðilegu tilliti og þættir úr staðfræði landsins, eldfjallafræði, eldvirkni, flokkun bergs, eldstöðva og hrauna, jarðhitasvæði, útræn öfl, uppruni og afleiðingar, veðrun og rof, roföflin og ummerki þeirra. Grundvallarnálgun að viðfangsefninu snýst um að nemendur öðlist yfirsýn og þekkingu á þeim jarðfræðilegu lögmálum sem hvarvetna má sjá merki um. Með samtengingu texta og verkefna er leitast við að opna augun fyrir lögmálum jarðfræðinnar og auka skilning á því hvernig innræn og útræn öfl setja mark sitt á landslagið. Lífvana hluti jarðar í daglegu umhverfi nemendanna er settur í víðara samhengi og þannig reynt að gera þá meðvitaða um hvað og hvers vegna náttúrulegt umhverfi er eins og raun ber vitni og hvernig er líklegt að það þróist og hvaða máli sú þróun skiptir. Takmarkið er að gera nemendur læsa á umhverfið og þannig auka yfirsýn og skilning sem geta leitt til vitundar um og virðingar fyrir náttúrulegum ferlum. Jafnframt öðlast nemendur nauðsynlega grunnþekkingu og færni til frekara náms í jarðfræði.
Engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hugtökum, kenningum og aðferðum jarðfræðinnar
notagildi jarðfræðilegrar þekkingar og mikilvægi hennar til skilnings á umhverfinu
samspili innrænna og útrænna afla og hvernig þekkja má ummerki eftir þau
innri gerð jarðar, landreki og jarðskorpuflekum
eldvirkni á Íslandi, ummerkjum um hana og staðsetningu jarðfræðilegra fyrirbæra á landinu
flokkun bergs og hvernig hún endurspeglar ólík birtingarform jarðfræðilegra ferla
roföflum og hvernig ólík öfl móta landið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita hugtökum og kenningum á skilmerkilegan hátt og í rökrænu samhengi
greina ummerki innrænna og útrænna afla við landmótun og álykta um þau
staðsetja náttúrufyrirbæri á Íslandi og tengja náttúrufarslega þætti við staðsetninguna
greina berg og steindir og geti nýtt bergfræði við flokkun og túlkun jarðfræðilegra fyrirbæra
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
sýna sjálfstæð og öguð vinnubrögð, virkni í gagnaöflun, leggja sjálfstætt mat á upplýsingar við úrvinnslu og geta sett niðurstöður fram í rökræðu
geta lesið í umhverfi sitt og flokkað, aðgreint og tengt atriði eftir aðstæðum og samhengi
geta dregið ályktanir af ólíkum aðstæðum á Íslandi varðandi landslag og jarðmyndanir
tengja undirstöðuþætti jarðfræðinnar við umhverfi sitt og geta fjallað á rökrænan hátt um mikilvægi og notagildi þeirra fyrir daglegt líf