Uppeldis- og kennslufræði skólastarfs er sérgrein innan uppeldis- og menntunarfræðinnar. Í skólum fer fram félagslegt uppeldi. Þetta á einnig við um ýmsar aðrar stofnanir t.d. félagsmiðstöðvar. Skólakerfið getur á stundum reynst flókið og það tekur breytingum í takt við samfélagið. Þekking á skólakerfinu og hvernig það kemur til móts við ólíkar þarfir nemenda er forsenda þess að skólastarf verði farsælt. Bráðgerir nemendur jafnt sem þeir er þurfa meiri stuðning eiga sinn rétt. Fjölmenningarleg kennsla fær sérstaka umfjöllun í áfanganum. Lestrarkennsla nemenda er einstaklingsbundin þar sem lestrargeta þeirra er mismunandi við upphaf skólagöngu. Samspil nemenda og kennara í kennslustofunni getur stundum reynst flókið. Þar getur komið til kynjamunur, hegðunarvandamál, ýmsir kvíðavaldar, léleg sjálfsmynd og fleira. Einelti getur þrifist þar sem margir koma saman og því er nauðsynlegt að þekkja birtingarmynd þess og til hvaða ráða er hægt að grípa. Sérstaklega verður tekið mið af forvörnum til að sporna gegn einelti en einnig verður komið inn á fræðilega umfjöllun á áfengis- og fíkniefnamisnotkun nemenda.
UPPE3KE05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
íslenska grunn- og framhaldsskólakerfinu
helstu rannsóknarniðurstöðum á sviði kennslu og skólastarfs
einstaklingsmun nemenda innan skólans
aðferðum sem hægt er að nota til farsælla samskipta í skólastofunni
aðferðum sem koma að notum í tengslum við forvarnir í skólum
sérstöðu kennslufræði og skyldleika hennar við uppeldis- og menntunarfræði
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
afla upplýsinga er tengjast rannsóknum á kennslu og skólastarfi og setja í fræðilegt samhengi
nýta fræðilegan/vísindalegan texta á íslensku og ensku
afla uppeldis- og kennslufræðilegra upplýsinga og nýta þær í hagnýtum verkefnum
beita skólaorðræðunni á ýmis viðfangsefni
miðla fræðilegu efni í ræðu og riti
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
vinna úr rannsóknargögnum og leggja mat á rannsóknir í kennslu og uppeldistarfi
leggja mat á hvaða samskiptaðferðir henta best við margvíslegar aðstæður og ólíka nemendur
beita grundvallaraðferðum í eineltismálum
taka þátt í rökræðum um uppeldis- og kennslufræðileg málefni
meta eigin frammistöðu og vinnuframlag sem og annarra á gagnrýninn hátt