Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á samspili innrænna og útrænna afla sem að móta jörðina. Nemendur eiga að geta gert grein fyrir hugmyndum manna um lagskiptingu jarðar og hvernig ysta lag jarðar er gert úr jarðskorpuflekum. Í áfanganum læra nemendur um hreyfingu jarðskorpuflekanna og hvernig mismunandi flekamót birtast á yfirborði jarðar. Farið verður yfir mismunandi gerðir af jarðskjálftabylgjum og hvernig vísindamenn hafa notað eiginleika jarðskjálftabylgja til að öðlast vitneskju um innri gerð jarðar. Nemendur læra einnig hvar jarðskjálftar verða á jörðinni og hvernig jarðskjálftar dreifast á Íslandi. Lögð er áhersla á jarðfræði Íslands í áfanganum og að nemendur geti útskýrt hvaða innrænu og útrænu öfl hafa verið að verki við að móta landið. Nemendur eiga að geta útskýrt hvernig jöklar hafa mótað landslagið, ummerki þeirra og hvernig þeir bregðast við loftslagsbreytingum. Nemendur læra um orkuauðlindir Íslands: vatns-, vind- og jarðhitaorku, nýtingu þessara orkugjafa, umhverfisáhrif og endurnýtanleika. Í áfanganum verður farið í kortalestur og túlkun og bauganet jarðar.
Inngangur að náttúruvísindum
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
ástæðum innri varma jarðarinnar
muninum á meginlandsskorpu og úthafsskorpu
flekakenningu Wegeners
flekamótum, flekaskilum og sniðgengum flekamörkum
mismunandi jarðskjálftabylgjum
jarðhitasvæðum landsins, eiginleikum þeirra og nýtingu
helstu gerðum eldfjalla og eldgosa
þeim þáttum sem hafa áhrif á hegðun eldgosa
myndun jökla, jökulíss og landmótun jökla
jafnvægislínu jökla, ákomusvæði og leysingasvæði
orkuauðlindum Íslands
bauganeti jarðar og mismunandi kortavörpunum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa í landslag á Íslandi og túlka hvaða innrænu og útrænu öfl hafa verið að verki
gera grein fyrir ástæðum jarðhita á Íslandi og dreifingu lág- og háhitasvæða
spá fyrir um hegðun eldgosa eftir því hvort þau verða undir jökli eða ekki
spá fyrir um hegðun eldgosa eftir efnasamsetningu kvikunnar
reikna út fjarlægð að skjálftaupptökum með því að lesa í skjálftalínurit
lesa í landslag Íslands og útskýra hvaða útrænu og innrænu öfl hafa verið að verki
finna staðsetningu kennileita á kortum
vinna með mismunandi mælikvarða á kortum og finna út vegalengdir milli staða á kortum
lesa í hæðalínur korta og gera þversnið af landslagi milli tveggja staða á kortum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
útskýra munnlega og skriflega hugtök jarðfræðinnar
skiptast á skoðunum og bregðast við viðmælendum sínum
leysa úr viðfangsefnum einn eða í samstarfi við aðra
þróa með sér aga, metnað, ábyrgð og jákvæðni í vinnubrögðum
ræða kosti og galla við nýtingu orkuauðlinda.
meta eigið vinnuframlag
Í áfanganum er viðhaft leiðsagnarmat með símati alla önnina. Öll verkefni gilda til einkunnar og þess vegna er það mikilvægt að nemendur stundi námið reglulega.