Í áfanganum er lista- og hönnunarsagan rakin samhliða tímalínu mannkynssögunnar. Um er að ræða þverfaglegan áfanga þar sem námsgreinarnar samfélagsfræði, saga og náttúrufræði eru tengdar við tímalínuna eftir því sem við á í þeim tilgangi að nemendur fái yfirsýn yfir hvernig list og hönnun hefur þróast í samhengi við þróun vísinda. Jafnframt er námsgreinin íslenska fléttuð saman við efni áfangans í þeim tilgangi leiðbeina nemendum um meðferð talaðs máls og ritaðs í verkefnavinnu áfangans. Nemendur fá auk þess þjálfun í notkun ýmiss konar upplýsingatækni til að auðvelda öflun og miðlun hvers kyns þekkingar. Tímalínan sem rakin er í áfanganum byrjar á forsögulegum tíma og er fylgt í gegnum aldirnar frá fornöld fram að iðnbyltingu. Staldrað er við uppgötvanir og þekkingu sem hafa haft áhrif á lífsstíl og heimsmynd fólks á tímabilinu. Leitast er við að nemendur öðlist á þessari vegferð sinni um mannkynssöguna nýja sýn á þær námsgreinar sem tengjast áfanganum, uppgötvi hvernig þær tengjast innbyrðis og hafa haft áhrif á listir og hönnun.
Engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hvernig og hvers vegna mannkynssögunni er skipt í ákveðin tímabil
grundvallarhugmyndum um atvinnu- og tækniþróun, stéttaskiptingu og þéttbýlismyndun í landbúnaðarsamfélagi
þróun ólíkrar menningar á ólíkum stöðum og tímum landbúnaðarsamfélagins
ólíkri stöðu kynjanna fyrr á öldum
hvernig menn á forsögulegum tíma nýttu sér auðlindir og lærðu að hagnýta náttúruna á tímabilinu sem til umfjöllunar er
hvernig náttúruvísindi þróuðust á fornöld út frá heimspekinni samhliða þróun stærðfræðinnar
menningu og listum á tímabilinu
forsendum góðrar framsagnar og eðlilegrar framkomu við flutning texta
mismunandi málsniðum og sérkennum talmáls og ritmáls
uppbyggingu texta á vönduðu máli þar sem samhengis í efni er gætt
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
greina einfaldar tölfræðiupplýsingar frá liðnum öldum
beita hugtökum félagsvísinda á ýmsa grundvallarþætti landbúnaðarsamfélagsins
greina hvernig samfélagslegar breytingar og þróun í náttúruvísindum hefur áhrif á listir og menningu á tímabilinu
taka þátt í umræðum og rökræðum um námsefni, námsmat og fyrirkomulag kennslu
losa um óæskilegar hömlur í framkomu og tjáningu
beita ólíkum málsniðum
greina sérkenni talmáls og ritmáls
ganga frá rituðum texta í tölvu
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
dýpka skilning sinn á hvaðan ýmsir grunnþættir samfélagsins eru komnir
átta sig á samfellu sögunnar síðastliðin árþúsund
greina samfélagsvandamál út frá nokkrum af grundvallarhugtökum félagsvísinda
geta útskýrt hvernig samfélagsbreytingar og framþróun í náttúruvísindum hefur áhrif á tækni, listir og menningu á tímabilinu
geta nýtt sér þekkingu á sérkennum talmáls og ritmáls og ólíkum málsniðum í töluðu og rituðu máli
geta nýtt sér handbækur og hjálparforrit við stafsetningu og framsetningu texta
auka leshraða sinn og bæta miðlalæsi
geta axlað ábyrgð á eigin námi
tileinka sér jákvætt viðhorf til móðurmáls og eigin málnotkunar
geta beitt lýðræðislegum vinnubrögðum í hópavinnu
geta beitt gagnrýninni hugsun varðandi námsefni, námsmat og fyrirkomulag kennslu