Í áfanganum eru undirstöðuatriði skyndihjálpar kennd. Fjallað er um streitu í neyðartilfellum, tilfinningaleg viðbrögð eftir að hafa veitt skyndihjálp, sálrænan stuðning og leiðir til að forðast sýkingar við beitingu skyndihjálpar. Farið er yfir hin fjögur skref skyndihjálpar: að tryggja öryggi á vettvangi, meta ástand slasaðra eða sjúkra, sækja hjálp og veita skyndihjálp. Nemendum er kennt að beita grunnendurlífgun og sjálfvirku hjartastuði, að athuga viðbrögð, opna öndunarveg, athuga öndun, beita hjartahnoði og blástursaðferð. Fjallað er um endurlífgunarkeðjuna, hliðarlegu og losun aðskotahlutar úr öndunarvegi. Nemendum er kennt að bregðast við hinum ýmsu áverkum, s.s. innvortis og útvortis blæðingum, sárum, brunasárum, áverkum á höfði, hálsi og baki og áverkum á beinum, vöðvum og liðum. Fjallað er um rétt viðbrögð við eitrunum, hitaslagi/hitaörmögnun og ofkælingu auk þess sem nemendur læra að bregðast við bráðum veikindum, s.s. brjóstverk (hjartaáfalli), bráðaofnæmi, heilablóðfalli, flogum, sykursýki og öndunarerfiðleikum (astma). Jafnframt er nemendum kennt að gera nánari líkamsskoðun, að bregðast við blóðnösum og losti. Nemendum er kennt að meta sár og beita sáraumbúðum, að bregðast við raflosti, höfuðáverkum og tannáverkum. Nemendur læra að bregðast við áverkum á brjóstkassa og kvið, læra að skorða hrygg og spelka útlimi og bregðast við vöðvakrömpum, sýklasótt og yfirliði.
Engar.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hugmyndafræði skyndihjálpar og áfallahjálpar
framkvæmd mats á ástandi slasaðs eða veiks einstaklings
framkvæmd endurlífgunar
blæðingum og viðbrögðum við lostástandi
hættu vegna aðskotahlutar í öndunarvegi
helstu tegundum sára, umbúða og sárabinda
helstu tegundum brunasára og viðbrögðum við þeim
helstu áverkum á líkama
fyrstu viðbrögðum við kali, ofkælingu og ofhitnun
fyrstu viðbrögðum vegna bráðra sjúkdóma, eitrana, bits og stungna.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
framkvæma mat á slösuðum eða veikum einstakling
flytja slasaðan einstakling af slysstað á öruggan hátt
beita blástursmeðferð og hjartahnoði
losa aðskotahlut úr öndunarvegi
búa um sár og velja umbúðir við hæfi
stöðva blæðingu og búa um blæðandi sár
beita viðeigandi meðferð við losti
spelka útlimi eftir áverka eða tognanir
veita fyrstu hjálp vegna brunasára
veita fyrstu hjálp vegna kals, ofkælingar eða ofhitnunar.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
meta aðstæður þar sem slys hefur átt sér stað eða bráð veikindi orðið og bregðast við þeim á viðeigandi hátt ...sem er metið með... verklegum æfingum
veita skyndihjálp vegna slyss, bráðra veikinda, dauðadás, líkamlegra áverka og sálrænna áfalla. ...sem er metið með... verklegum æfingum.
Frammistaða er metin samfellt í gegnum allt námskeiðið með verklegum æfingum.