Í þessum áfanga fer fram kynning á jarðfræði sem vísindagrein, stiklað er á þróun hugmynda innan hennar, fjallað um tengsl við aðrar vísindagreinar og notagildi með íslenskar aðstæður að leiðarljósi. Teknir eru til umfjöllunar ákveðnir efnisþættir innan jarðfræði sem tengjast notkun tækninnar við nýtingu náttúrulegra auðlinda og orkuframleiðslu. Í upphafi er farið í almenn atriði tengd aldri og uppruna jarðar og fjallað um byggingu hennar og lagskiptingu. Þá er jarðsagan tekin til umfjöllunar og stiklað á stóru hvað varðar breytingar á jörðinni, s.s. landrek, þróun lífs og loftslags. Fjallað er um jarðfræðirannsóknir, einkum þær sem tengjast mannvirkja- og virkjanagerð. Einnig um mismunandi orkugjafa hér á landi og í samanburði við önnur svæði jarðar, rannsóknir tengdar nýtingu þeirra og jarðefna hér á landi og gæði þeirra. Fjallað er um umhverfisáhrif í tengslum við mannvirkjagerð og orkunýtingu, s.s. spillingu náttúruperlna, jarðrask og mengunarhættu. Lögð er áhersla á að í áfanganum velji nemendur sér nokkur sérhæfð en fjölbreytt verkefni sem krefjast upplýsingaöflunar, vettvangsathugana og náttúruskoðunar og kynni þau á ýmsan hátt.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
tilteknum hugtökum og kenningum jarðfræðinnar
geri sér grein fyrir eðli og hlutverki jarðfræðinnar sem vísindagreinar
mismunandi landsvæðum á grundvelli staðfræði Íslands
nýtingu helstu orkuauðlinda landins að teknu tilliti til umhverfisáhrifa
sérstöðu Íslands í jarðfræðilegu samhengi
helstu dráttum í myndun og sögu jarðar og geti gert grein fyrir lagskiptingu hennar og myndun helstu berggerða
helstu aðferðum jarðfræðinga við rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana og jarðvarmavirkjana
jarðfræðilegum myndunum helstu náttúrulegra orkugjafa jarðar
uppruna nýtanlegra jarðefna bæði hér á landi og annars staðar í heiminum og geti borið saman gæði þeirra og möguleika til nýtingar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
vinna með almenna umfjöllun um jarðfræðileg fyrirbæri til dæmis í fjölmiðlum
nota kort og loftmyndir við túlkun jarðfræðilegra gagna
teikna einfalt þversnið af innri gerð jarðar og flekamörkum
staðsetja flekamörk, gosbelti og möttulstrók landsins
útskýra hringrás bergs
vinna verkefni sem snúa að mati á kostum og göllum mismunandi orkugjafa út frá jarðfræðilegum forsendum og umhverfisforsendum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
yfirfæra bóklega þekkingu yfir á það sem sjá má í náttúrunni til dæmis í vettvangsferðum
lesa úr gögnum er varða nýtingu orkuauðlinda og umhverfisáhrif þeirra
gera sér grein fyrir nýtingu jarðefna hér á landi fyrr á öldum og einnig nú á tímum
geta lagt mat á mögulega nýtingu jarðefna hér á landi
geta fjallað um valdar virkjanir hér á landi með tilliti til orkuvinnslu, nýtingar á orku, umhverfisáhrifa og mengunarhættu