Markmið áfangans er að gefa nemandanum innsýn í sjálfan sig, bæði sem einstakling og í samfélagi við aðra. Nemandinn lærir að þekkja mörk sín og öðlast dýpri skilning á sjálfum sér og umhverfi sínu ásamt því að styrkjast til að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs. Áhersla er lögð á að efla sjálfsmynd nemandans og trú hans á eigin getu en jafnframt gera hann meðvitaðan um þá ábyrgð sem hann hefur í samskiptum við aðra. Gerð er krafa um að nemendur skoði markvisst persónu sína og endurskoði markmið sín og lífstíl. Nemendur kynnast því hvernig þeir geta haft bein og óbein jákvæð áhrif á samfélagið sitt. Í áfanganum er unnið að því að styrkja félagstengsl milli nemenda, undirbúa þá til að takast á við krefjandi nám og leggja þannig grunn að frjóu menntasamfélagi. Eitt af markmiðunum er að nemendur eflist í að koma fram af virðingu við aðra í fjölmenningarlegu þjóðfélagi. Nemendur eru hvattir til að yfirfæra þá þekkingu og vinnubrögð sem þeir öðlast yfir á aðrar námsgreinar og út í lífið almennt. Nemendur fá tækifæri til að vinna við margvísleg viðfangsefni á fjölbreyttan og skapandi hátt.
.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
þeim kröfum sem gerðar eru í námi í framhaldskóla
að spyrja sjálfan sig og aðra spurninga
þýðingu þess að lifa í samfélagi við aðra
því að verða betur meðvitaður um sjálfan sig, áhugasvið sitt og styrkleika
framtíðarmöguleikum sínum
mikilvægi markmiðasetningar og leiðum að settum markmiðum
gagnsemi sjálfboðastarfa fyrir samfélagið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
tjá sig í töluðu og rituðu máli
sýna umburðarlyndi, samhygð og virðingu fyrir öðrum
beita gagnrýnni hugsun og spyrja spurninga
bera virðingu fyrir sjálfum sér
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
auka færni sína í mannlegum samskiptum
bæta eigin vinnubrögð og samstarf við aðra
taka ábyrgð á eigin lífi og vera meðvitaðri um að daglegar ákvarðanir og breytni hafa áhrif til framtíðar
lifa í þjóðfélagi sem er í sífelldri þróun
stunda árangursríkt nám á framhaldsskólastigi og taka ábyrgð á eigin námi
Leiðsagnarmat. Fjölbreytt verkefni metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla á umsagnir sem leiða nemandann áfram. Engin skrifleg lokapróf.