Nemandinn þjálfar sig í að umbreyta þrívíðu formi mannslíkamans í tvívíða teikningu. Samvinna sjónskynjunar og hreyfingar handa er efld á ýmsa vegu. Nemandinn tileinkar sér aðferðir til að meta stærðir, stefnu, hlutföll og afstöðu mismunandi líkamsparta og raða saman í heildarmynd. Hann rannsakar á agaðan hátt byggingu og mótun forma mannslíkamans þar sem áhersla er á jafnvægi, hlutföll, hreyfingu og innsýn í þann samhljóm sem er milli módelteikningar og beina og vöðvabyggingar. Nemandinn beitir einnig frjálsri teikningu þar sem leikur, túlkun og tjáning er í forgrunni.Teiknað og mótað er eftir lifandi fyrirmynd, beinagrind og tvívíðum myndum t.d. með blýanti, kolum, bleki og leir. Í tengslulm við verkefnavinnu skoðar nemandinn dæmi úr myndlistasögu og samtímalist þar sem mannslíkaminn er viðfangsefnið. Hann vinnur sjálfstætt að nánari skoðun á módeli og teiknistíl milli kennslustunda og ígrundar stöðugt verk sín í samvinnu við aðra nemendur og kennara.
SJÓN1TF05, SJÓN1LF05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
samvinnu sjónskynjunar og hreyfingar handar í teikningu
jafnvægi, hlutföllum, hreyfingu og mótun forma mannslíkamans
samhljómi milli módelteikningar og beina- og vöðvabyggingar mannslíkamans
aðferðum til að meta jafnvægi, hlutföll, hreyfingu og afstöðu mismunandi líkamshluta
hvað er ólíkt með rannsóknarvinnu og frjálsri teikningu
hvernig nokkrir listamenn hafa unnið með mannslíkamann í sögunni og samtímanum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
hreyfa teikniáhald í samræmi og samfellu við skynjun sína
teikna og móta hreyfingu í mismunandi líkamsstöðu í jafnvægi og réttum hlutföllum
móta megin form líkamans
beita hjálparaðferðum til að meta jafnvægi, hlutföll, hreyfingu og afstöðu mismunandi líkamshluta
byggja teikningu sína á rannsóknarvinnu á mannslíkamanum og verkum annarra
skynja og túlka það sem hann sér og upplifir
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
vinna að ýmsum ólíkum verkefnum í módelteikningu
koma auga á hluti/þætti í umhverfi sínu sem tengjast módelteikningu og vinna með þá á eigin forsendum
nýta verk annarra listamanna sem innblástur fyrir eigin verk
taka virkan þátt í umræðu um verk sín og annarra
ígrunda verk sín og vinnuferli og ræða við aðra
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.