Það kom upp villa senda inn  Áfangi

    Áfangi Nánari upplýsingar


    Búið til: 1424090410.03

    Vefnaður
    HÖTE2VE06(AV)
    3
    Hönnun og textíll
    bindifræði, vefnaður
    Samþykkt af skóla
    2
    6
    AV
    Í áfanganum lærir nemandinn um gildi vefnaðar fyrr og nú. Hann tekur virkan þátt í uppsetningu á vef í vefstól og vefur a.m.k. þrjú misstór stykki og þrjár prufur. Lögð er áhersla á einskeftuvefnað og vaðmál í prufum. Nemandinn lærir að þekkja muninn á band-, þráðar- og jafnþráða áferð í vefnaði. Í stykkjum og prufum með bandáferð er lögð áhersla á einskeftu- og rósabandavefnað. Í prufum með þráðaráferð er lögð áhersla á þráðarbrekán og með jafnþráða áferð er lögð áhersla á að nemandinn kynnist salúnvefnaði, litafléttum í einskeftu og vaðmáli og knipplingavefnaði eða öðrum skyldum aðferðum. Lögð er áhersla á að nemendur læri bindifræði og haldi vinnumöppu allan áfangann.
    HÖTE2HU05
    Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
    • mikilvægi vefnaðar í lífinu almennt og menningarlegu gildi hans, sérkennum og sögu
    • mismunandi vefstólum og muninum á trissuvefstól og gagnbindingarvefstól
    • umhirðu þeirra áhalda sem notuð eru
    • mismunandi tækjum og tólum sem tilheyra vefnaði
    • fagtungumáli og þeim hugtökum sem notuð eru í vefnaði
    • frumbindingum í vef þ.e. einskeftu, vaðmáli og ormeldúk
    • mismunandi þráðum sem notaðir eru í vefnaði s.s. endurnýtanlegu efni, ullarbandi, bómull og hör
    • stigtölum/lotunúmerum mismunandi vefjarefna
    • bindifræðiforriti sem notað er í áfanganum
    • mismunandi inndráttarmunstrum fyrir einskeftu, rósaband, salúnvefnað og litafléttur í einskeftu og vaðmáli og hvaða þýðingu þau hafa
    • muninum á einföldum uppbindimunstrum og stigmunstrum
    Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
    • reikna út í slöngu með mismunandi vefjarefnum fyrir einfaldar bindingar
    • beita af öryggi bindifræðiforriti fyrir vefnað á sjálfstæðan og skapandi hátt
    • rekja í slöngu upp að a.m.k. 250 þráðum
    • þræða í forskeið og reikna út í hana
    • rifja í vefstól og setja upp vef í vefstól í samvinnu við nemendur og kennara
    • spóla mismunandi vefjarefni á garnvindu, dokkuvindu og spólurokk
    • vefa einfaldar prufur í band-, þráðar og jafnþráða áferð í trissuvefstól
    • beita líkamanum á réttan hátt við vinnu sína og verklag í vefnaði
    • beita skapandi aðferðum í vefnaði t.d. með lita- og efnisnotkun
    Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
    • nýta sér mismunandi aðferðir og verkkunnáttu í vefnaði og bindifræði
    • leysa af hendi verkefni undir leiðsögn kennara
    • túlka verkefni og útfæra þau og búa yfir sjálfstrausti við vinnu verkefna
    • skilja menningarsögulegt og lýðræðislegt hlutverk textíls, handverks, hönnunar og vefnaðar hjá íslendingum og öðrum þjóðum
    • vera fær um að taka þátt í uppbyggilegri og frjórri samræðu um verk sín og annarra í vefnaði
    • ígrunda og rökstyðja lita- og efnisval sitt bæði í verklegum og tæknilegum útfærslum í bindifræði og vefnaði
    • greina styrk sinn og nýta sér hann í verkefnavali, undir leiðsögn kennara
    Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.