Í áfanganum útfærir og vinnur nemandinn verk eftir eigin hugmynd og velur viðfangsefni
eftir eigin áhugasviði. Hann getur valið að dýpka skilning á námsgreinum sem hann hefur áður kynnst eða kynnt sér nýjar. Nemandinn skal skipuleggja heildarvinnuferlið, frá hugmynd að lokaverki sem hann sýnir í lok annar. Verkið skal uppfylla kröfur um hugmyndaauðgi, listræna framsetningu og góðan frágang. Nemandanum er frjálst að leita fanga eins víða og hann telur nauðsynlegt til að ná fram settum markmiðum.
Nemandinn þarf að hafa lokið öllum textíl- og myndlistaráföngum á sínu kjörsviði.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hvernig hugmynd er fylgt eftir frá því að hún fæðist og þangað til hún er sett upp á sýningu
sjálfstæðum vinnubrögðum við þróun hugmynda
samfélagslegu og menningarlegu gildi hönnunar sinnar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
auka færni sína í að vinna vandaða hugmyndavinnu í þeim efnivið sem hentar honum
skipuleggja verkferli með ábyrgum og sjálfstæðum hætti
beita sjálfstæðum vinnubrögðum við þróun hugmynda og útfærslu verka
sýna áræðni við útfærslu hugmynda og túlkun
miðla þekkingu sinni á fjölbreyttan hátt; munnlega, skriflega, verklega og/eða með nýmiðlum
endurmeta hugmyndir sínar og taka tillit til breytinga í framkvæmd
greina, tjá sig um og meta eigin verk og annarra af þekkingu, víðsýni og umburðarlyndi
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
setja fram vinnuáætlun, fylgja henni og greina verkþætti
sýna frumkvæði og skapandi nálgun í listgrein sinni
taka þátt í og skipulegga lokasýningu með sameiginlegt markmiðs hópsins að leiðarljósi
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.