Í áfanganum er farið í grunnatriði örverufræði og staða örverufræðinnar innan náttúrufræðinnar skoðuð. Farið yfir flokkun dreifkjörnunga og frumvera sem og lífsstarfsemi örvera eins og efnaskipti, æxlun og dreifingu. Nemandinn lærir um mikilvægi örvera í náttúrulegum vistkerfum, í iðnaði sem og skemmdir og sjúkdóma af völdum örvera og varnir gegn þeim. Helstu flokkar baktería eru kynntir. Frumatriði í veirufræði, s.s. staða veira í lífheiminum, gerð, fjölgun, áhrif veira á hýsla, veirusjúkdómar og varnir gegn þeim. Flokkun sveppa og staða frumdýra í lífheiminum. Nemandinn kynnist vinnubrögðum á rannsóknarstofu eins og að vinna sterilt og skrá niðurstöður skipulega. Sérstök áhersla er lögð á að tengja þekkingu nemendans í erfðafræði við örverufræði og tengja efni áfangans við daglegt líf.
LÍFF3SE05 eða sambærilegur áfangi
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hugmyndum manna um flokkun lífvera í veirur, dreifkjörnunga og heilkjörnunga og í aðalatriðum muninum á Eubacteriae og Archaebacteriae
uppbyggingu og helstu eiginleikum baktería, veira, sveppa og frumvera
sögu örverufræði og helstu atriðum varðandi ræktun og varnir gegn örverum
helstu aðferðum við sótt- og dauðhreinsun og helstu eiginleikum örvera varðandi efnaskipti, hita, súrefni, vatnsvirkni og sýrustig
nokkrum af þeim ættkvíslum baktería sem tengjast sjúkdómum eða eru hagnýttar, bæði byggingu þeirra og aðra eiginleika
flokkun veira með tilliti til byggingar og eiginleika, meðal annars lögun þeirra og gerð erfðaefnis
hvernig unnið er að því að búa til veiruprótín
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
blanda næringaræti, dauðhreinsa það, hella á ræktunarskálar og vinna almennt með ræktun á sterilan hátt til að forðast mengun sýna
setja bakteríusýni á ræktunarskálar með ræktunarlykkju með sterilum hætti og með því að dreifa sýni á skál til að meta þéttleika baktería
lesa af ræktunarskálum, fylgjast með lit og lögun þyrpinga og geta reiknað út þéttleika baktería miðað við þynningar
nota latínuheiti helstu ættkvísla baktería og lesa úr þeim grunnupplýsingar um lögun og eiginleika þeirra
lesa yfirlitsmyndir um lífsferla örvera svo sem fjölgun baktería, innrásar- og fjölgunarferli veira og lífsferla sníkjudýra
miðla upplýsingum til samnemenda með ýmsum hætti
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
nýta og túlka upplýsingar um sjúkdóma og örverur og skilja helstu atriðin varðandi eðli sýkla, smitleiðir, hættu á smiti og eðlilegar varnir gegn smiti
gera grein fyrir eðlilegri og góðri meðferð matvæla til að lágmarka hættu á matarsýkingum
útskýra með dæmum muninn á bakteríum og veirum
nýta sér einfaldan fræðilegan texta um örverur, bæði á íslensku og ensku
útskýra viðfangsefni áfangans með því að nota hugtök af nákvæmni
taka þátt í rökræðum er lúta að viðfangsefni áfangans t.d. bólusetningum, smithættu og hagnýtingu örvera
tengja örverufræði og almenna líffræði við daglegt líf og umhverfi
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.