Í áfanganum er lögð áhersla á meginatriði jarðfræði Íslands, tengsl uppruna landsins við landrek og landmótun af völdum innrænna og útrænna afla. Farið er yfir undirstöðuatriði steinda- og bergfræði og einnig kenningar um uppruna kviku og myndun mismunandi kvikugerða undir Íslandi. Fjallað er um helstu gerðir eldstöðva og mismunandi eldvirkni þeirra skýrð. Farið er yfir hvað veldur jarðskjálftum og eðlisþættir þeirra skoðaðir. Fjallað er um helstu jarðskjálftasvæði á Íslandi og á jörðinni í heild. Landmótun, veðrun og rof á Íslandi verða tekin fyrir í áfanganum. Í áfanganum skal samtvinna bóklegt og verklegt nám þannig að hinn fræðilegi þáttur námsins tengist á eðlilegan hátt fjölbreyttum vettvangsrannsóknum sem og nýtingu nýjustu upplýsinga- og samskiptatækni.
AUMM1AU05(11) og EFEÐ1EE05(11)
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
notagildi jarðfræðiþekkingar með íslenskar aðstæður að leiðarljósi
helstu gerðum eldstöðva og mismunandi eldvirkni þeirra
myndun bergs
myndun mismunandi gerða kviku
eðli jarðskjálfta og þeim stöðum á Íslandi þar sem mest hætta stafar af þeim.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita öllum algengustu hugtökum og heitum í jarðfræði í umfjöllun sinni um myndun og gerð náttúrufyrirbæra
teikna útskýringarmyndir af jarðfræðilegum viðfangsefnum
skoða jarðfræðikort af ákveðnum landsvæðum.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
greina berg og steindir í handsýnum ...sem er metið með... verkefnum og/eða prófum
útskýra myndun mismunandi landsvæða af völdum innrænna afla, s.s. út frá landreki, eldvirkni, jarðskjálftum og jarðhita ...sem er metið með... verkefnum og/eða prófum
fjalla um landmótun sem stjórnast af útrænum öflum, s.s. landmótun af völdum frostverkana, vatnsfalla, sjávar, jökla og vinds ...sem er metið með... verkefnum og/eða prófum.
Í áfanganum er gert ráð fyrir leiðsagnarmati sem byggist á því að nemandinn fái með skipulegum og reglulegum hætti upplýsingar frá kennara um hvernig hann stendur í náminu. Meðal námsmatsþátta eru ýmiss konar skrifleg verkefni, skýrslugerð og próf.