Nemandinn vinnur lokaverkefni eftir eigin áhugasviði allt frá grunnhugmynd að lokaútfærslu. Hann getur dýpkað skilning sinn á miðlum sem hann hefur áður kynnst eða kynnt sér nýja. Nemandinn gerir verkáætlun sem hann fylgir eftir. Hann leitar víða gagna bæði hvað varðar hugmyndir og tækni. Hann ígrundar vinnu sína jafnt og þétt í samvinnu við kennara og nemendahóp. Verk hans skal uppfylla kröfur um hugmyndaauðgi, listræna framsetningu og góðan frágang. Nemandinn gerir grein fyrir forsendum fyrir vali á viðfangsefni, hugmynd að baki, þróunarferli og afstöðu til niðurstöðu. Nemandinn tekur þátt í að undirbúa og setja upp sýningu á verkum hópsins.
Nemandinn þarf að hafa lokið öllum myndlistaráföngum á sínu kjörsviði.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
hvernig myndlistarverk er unnið frá grunnhugmynd að lokaútfærslu
eigin sköpunarferli og þeim þáttum sem liggja að baki sjálfstæðri og skapandi vinnu
öguðum vinnubrögðum við þróun og útfærslu hugmynda
mikilvægi ígrundunar í sköpunarferli
stöðu eigin verka í myndlistarlegu samhengi
hvernig samsýning er sett upp
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
vinna myndlistarverk frá grunnhugmynd að lokaútfærslu
vinna með þá miðla sem hann hefur áður kynnst eða takast á við nýja
gera verkáætlun og fylgja henni eftir
vinna sjálfstætt og sýna aga og áræðni í vinnubrögðum
ígrunda á öllum tímum vinnuferlis og vera opinn fyrir breytingum
beita viðeigandi aðferðum við útfærslu verka sinna þannig að afrakstur verði í tengslum við ætlan
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
setja upp sýningu
tjá sig á skýran, ábyrgan, gagnrýninn og skapandi hátt um eigin verk og listræna niðurstöðu
stunda nám í myndlist eða myndlistartengdu námi á háskólastigi
sýna frumkvæði og hugmyndaauðgi í sköpunarferli
færa rök fyrir þeim ákvörðunum sem hann tekur í þróunarferlinu
fjalla á upplýstan og greinargóðan hátt um eigin verk og samnemenda þannig að gagnlegar umræður skapist
undirbúa og setja upp samsýningu
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.