Kynntar verða helstu rannsóknaraðferðir og rannsóknarferli sem viðhöfð eru í uppeldis- og menntunarfræðum. Nemendur eiga að öðlast færni í að vinna sjálfstætt undir leiðsögn kennara. Þeir vinna eitt stórt rannsóknarverkefni og hafa nokkuð frjálsar hendur um val á viðfangsefni. Viðfangsefnin verða að tengjast uppeldisaðstæðum barna og unglinga eða efnisþáttum sem hafa verið til umfjöllunar í fyrri uppeldisfræðiáföngum. Mikilvægt er að nemendur sýni frumkvæði í vali á viðfangsefnum. Nemendahópar geta haft samvinnu við verkefnaval, skipst á gögnum og borið saman aðstæður barna í ólíkum löndum, t.d. með notkun upplýsingatækni.
UPPE3MU05 eða sambærilegur áfangi
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
markmiðum og mikilvægi tímaramma
megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum
því sem hefur áhrif á val á rannsóknaraðferð
sértækum hugtökum og mikilvægi þeirra
siðferði í rannsóknum
réttri notkun heimilda, heimildaöflun og heimildaskráningu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
nota fræðilegan texta á gagnrýninn hátt
beita viðeigandi rannsóknaraðferð á margvísleg viðfangsefni
skipuleggja vinnu sína
tengja saman rannsóknarniðurstöður og kenningar
miðla fræðilegu efni í ræðu og riti
sýna ekki svipbrigði, fordóma eða hlutdrægni í rannsóknarferlinu
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
sýna frumkvæði um val á viðfangsefni og afmarka það
leggja mat á hvaða rannsóknarðaðferðir henta best við margvíslegar aðstæður og á mismunandi rannsóknarefni
vinna á ábyrgan og traustan hátt úr þeim upplýsingum sem nemandinn aflar
vinna sjálfstætt og skipuleggja tíma sinn
setja fram þekkingu sína í ræðu og riti og rökstyðja
meta eigið vinnuframlag og frammistöðu sem og annarra á gagnrýninn hátt
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.