Fjallað verður um breskt og bandarískt samfélag, alþjóðleg áhrif og útbreiðslu enskrar tungu. Í tengslum við það verður unnið með fjölbreytt efni, s.s. bókmenntir, kvikmyndir, fréttir, heimildamyndir og ýmiskonar texta. Í þessum áfanga er lögð áhersla á að nemendur vinni með fjölbreyttari og flóknari texta en áður. Þeir halda áfram að tileinka sér nýjan orðaforða, tjá hugsun sína skýrt í ræðu og riti og rökstyðja skoðanir sínar. Nemendur vinna í auknum mæli sjálfstætt að viðameiri verkefnum, svo sem þematengdu efni að eigin vali o.fl., sem felur í sér öflun upplýsinga í gegnum margmiðlunarefni, á bókasafni og á netinu. Áhersla er lögð á fjölbreytt verkefni þar sem nemendur hafa val um form verkefnaskila.
10 fein. í ensku á 2. þrepi.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
fjölbreyttum orðaforða sem gerir honum kleift að takast á við áframhaldandi nám
sögu og menningu á helstu málsvæðum enskunnar
alþjóðlegum áhrifum og útbreiðslu enskrar tungu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa sér til fræðslu og ánægju flókna texta
hlusta og taka þátt í umræðum og rökræðum um efni fræðilegs og menningarlegs eðlis
átta sig á mismunandi málsniði og stíl í töluðu máli
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
beita málinu af lipurð og kunnáttu
taka þátt í umræðum og rökræðum um menningarleg, félagsleg og fjölmenningarleg efni
flytja vel uppbyggða kynningu, draga fram aðalatriði, rökstyðja mál sitt með dæmum og bregðast við fyrirspurnum
afla sér þekkingar um fræðileg viðfangsefni og miðla á skýran hátt
skrifa texta með röksemdarfærslu þar sem rök eru vegin og metin
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.