Í áfanganum verða teknir fyrir valdir þættir í vestrænni heimspekisögu frá Grikklandi til forna fram að lokum 20. aldar. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu í þróun heimspeki í gegnum mannskynssöguna ásamt grundvallarskilningi á helstu heimspekikenningum sem hafa mótað viðhorf mannsins til siðferðis, frelsis, trúar og náttúrunnar. Markmið áfangans er að fræða nemendur um fjölbreyttar hugmyndir og stefnur innan heimspekinnar og kynna fyrir þeim aðferðir við að ræða og taka afstöðu um álitaefni í menningu og tilveru mannsins. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku nemenda þar sem gerð verður krafa um sjálfstæði þeirra í skoðanamyndun og rökræðum. Verkefnavinna miðar að því að nemendur öðlist hæfni til að móta eigin þekkingu og viðhorf við úrlausn fjölbreyttra viðfangsefna.
Fimm fein. í félagsvísindum á 1. þrepi.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
völdum heimspekingum og heimspekikenningum frá Forn Grikklandi til okkar tíma
mikilvægi gagnrýnnar hugsunar
undirstöðuatriðum heimspekilegrar hugsunar
sjónarmiðum heimspekinga um fjölbreytt málefni innan greinarinnar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa heimspekitexta
endursegja og skýra heimspekilega texta
beita gagnrýnni hugsun
meta eigin rök og annarra út frá heimspekilegum sjónarmiðum
tjá sig og ræða um málefni út frá ólíkum sjónarhornum heimspekinnar
tengja heimspeki við eigin reynslu og veruleika.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
geta beitt gagnrýnni hugsun á markvissan hátt
geta borið saman ólíkar skoðanir og rök
geta tileinkað sér nýja þekkingu á markvissari hátt
beita hugmyndum og sjónarhornum heimspekinnar til aukins skilnings á samfélagi sínu og menningu
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.