Nemandinn fær almenna kynningu á umhverfi á málmsmíðaverkstæði ásamt helstu umgengnis- og öryggisreglum. Þá er farið yfir meðferð og notkun helstu mælitækja, handverkfæra og einföldustu tækja til smíða sem notuð eru í málmiðnaði. Unnið er að verkefnum þar sem nemandinn les vinnuteikningar, fær þjálfun í að mæla, merkja, saga, sverfa, bora, snitta, slípa, o.s.frv. Jafnframt lærir nemandinn að nota handbækur og töflur. Lögð er áhersla á að nemandinn kunni skil á vinnsluhætti rennibekkja, borvéla og fræsivéla og læri umhirðu véla og verkfæra sem hann vinnur með. Nemandinn öðlast nægilega færni til að leysa einföld verkefni í rennibekk innan 0,1 mm málvika. Farið er yfir grunnþætti í þunnplötusmíði, helstu verkfæri og vélar, þannig að nemandinn geti smíðað einfalda hluti. Samhliða kennslunni fer fram fræðsla um slysahættu og öryggisþætti á vinnustað, þar sem rík áhersla er lögð á umgengni við vélar og verkfæri sem unnið er með.
engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
meðferð og umhirðu verkfæra
mælitækjum og uppmerkitækjum
notkun slípibanda og smergelskífa
almennum öryggisreglum á vinnusvæði
mikilvægi þess að ganga þrifalega um vinnusvæði sitt
mikilvægi þess að ganga á réttan hátt frá spilliefnum, t.d. olíu og olíublautum pappír
mikilvægi góðrar loftræstingar
undirstöðuatriðum heilsuverndar
réttri notkun hlífðarfatnaðar og persónuhlífa
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
smíða hluti úr mismunandi málmum
lesa af teikningum
beita mælitækjum og uppmerkitækjum
beita helstu hjálpartækjum, t.d. rissnál, vinkli, hæðarrissi og hringfara við uppmerkingu á efni fyrir vinnslu
beita réttri yfirborðsmeðhöndlun miðað við efnisgerð og notkun
velja sér skeráhöld til verka
draga bor og rennistál ef á þarf að halda
bora í málma af mismunandi gerðum og þykktum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
efna niður og málsetja einfalda hluti úr málmi
ákveða rétta vinnsluaðferð
velja réttar þjalir fyrir efni og áferð
velja bora eftir efnum sem bora skal og snúningshraða eftir borstærð og efnum
velja rétta borstærð í töflu eftir stærð snitttappa sem nota á
gera skrúfgang með snittverkfærum og nota snitttöflu i verklegum æfingum
skipuleggja vinnu sína á sjálfstæðan og agaðan hátt
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.