Farið yfir vinnuverndarmál, svo sem reglur um heilbrigði, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ýmsar hættur í störfum og örugg vinnubrögð. Skoðuð áhöld og verkfæri sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum. Skoðuð sérverkfæri og áhöld til sérgreindra verka. Farið yfir notkunarsvið og vinnuverndaratriði sem tengjast ýmsum verkstæðisbúnaði, einkum málmsuðutækjum, lyftitækjum, þrýstilofts- og rafknúnum tækjum og aflverkfærum. Farið yfir meðhöndlum skrúffestinga, þ.m.t. að gera við skrúfgang og bora úr slitna bolta. Fjallað um hættuleg efni og eitrunarhættu og bruna- og sprengihættu. Mikilvægi þess að íhuga hættur og þekkja viðbrögð við óhöppum. Hreinlæti og meðferð úrgangs og spilliefna. Áhersla á fagmennsku við alla þætti sem snerta starfið.
Farið yfir samskipti milli starfsmanna á vinnustað og viðskiptavina. Framkoma við viðskiptavini: ráðlegging, útskýringar á viðgerðarþörf, fyrirspurnir og kvartanir. Hvernig getur viðgerðamaður viðhaldið þekkingu sinni og hæfni. Farið yfir skipulag vinnu, verkfæranotkun, upplýsingaöflun og aðferðir við bilanagreiningu. Notkun viðgerða- og handbóka. Mikilvægi sanngirni og heiðarleika í samskiptum. Nauðsyn skipulegra vinnubragða og heildaryfirsýnar við störf sín. Áfanginn er sameiginlegur bifreiðasmíði, bifvélavirkjun og bílamálun. Áherslur í kennslu skulu vera í samræmi við það.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
þeim almennu og sérstöku hættum sem fylgja störfum á ökutækjaverkstæðum og valdið geta slysum, sjúkdómum og skemmdum á verðmætum
persónulegum öryggisbúnaði og reglum um notkun
öryggis- og hlífðarbúnaði sem er á tækjum eða verkfærum
helstu almennu verkfærum og sérverkfærum sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum, notkun þeirra og umhirðu
algengum skrúffestingum og lyklastærðum
nauðsyn góðra samskipta og trausts á milli þeirra sem tengjast starfi viðgerðamannsins
gildi tjónamatskerfa
kröfum um ástand og öryggi í reglugerð um gerð og búnað ökutækja
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
gæta eigin öryggis og annarra á vinnustað
nota öryggis- og hlífðarbúnað sem er til staðar á verkstæðum, verkfærum og tækjum
nota helstu verkfæri og sérverkfæri sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum
eiga samskipti við samstarfsmenn og viðskiptavini
gera við skrúfgang og bora úr slitna bolta
nota skoðunarhandbók Umferðarstofu
finna upplýsingar í viðgerða- og handbókum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
útskýra hugtakið fagmennska
lýsa reglum um hreinlæti, meðferð og förgun úrgangs og spilliefna
sýna hvernig nota á persónulegan öryggisbúnað
skilja samábyrgð allra á vinnustaðnum um örugg vinnubrögð
meta ástand almennra áhalda og verkfæra sem notuð eru á ökutækjaverkstæðum
lýsa meðferð, hirðu og beitingu almennra áhalda og verkfæra sem notuð eru á verkstæðum
lýsa notkun og meðferð verkstæðisbúnaðar: málmsuðutækja, lyftitækja, þrýstilofts- og rafknúinna tækja, aflverkfæra og ýmissa léttitækja
skipuleggja vinnu sína svo að árangur starfsins verði sem bestur
skrá vinnuskýrslu um verk sín
gera einfalda áætlun um viðgerð á bifreið
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.