Í þessum áfanga byggingatækni er fræðilegur grunnur glugga- og hurðasmíði, innréttingasmíði og inniklæðninga kynntur fyrir nemendum. Fjallað er um umgengni við efni, vélar, verkfæri og vinnustaðinn með áherslu á verkstæðishluta iðngreinarinnar. Lögð er áhersla á að nemandinn tileinki sér faglega nálgun á þeim verkefnum sem unnin eru samhliða áfanganum. Kenndar eru samsetningar, lausnir og hugtök sem leggja grunninn að góðum vinnubrögðum við smíði á innréttingum, gluggum, hurðum og inniklæðningum. Einnig vinna nemendur verkefni tengd efni áfangans með það fyrir augum að auka áhuga þeirra og kynna þeim mikilvægi þekkingar og fagmennsku í iðngreininni. Kynnt er fyrir nemendum þróun og saga ofantaldra verkþátta. Kenndir eru staðlar og reglugerðir sem ná yfir innihald áfangans.
Nemandi hafi lokið við áfangana:
TRÉS1VT08 Vél- og trésmíði
TRÉS1VÁ05 Viðar- og áhaldafræði
TRÉS1HV08 Trésmíði og handavinna
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
smíði innréttinga
smíði glugga og útihurða
framleiðsluferli innréttinga, glugga og hurða
notkun efna til framleiðslu innréttinga, glugga og hurða
öryggisreglum og öryggisbúnaði við framleiðslu innréttinga
hvernig vali á innanhússklæðningum og útfærslu þeirra er háttað
helstu tækjum og aðferðum við innanhússklæðningar
efnum sem notuð eru við smíði innréttinga, hurða og glugga
viðarspæni og plastefnum sem notuð eru til spónlagningar
plötuefni og límtré sem notað er í innréttingar og innihurðir
framleiðslu málaðra innréttinga úr MDF-plötum
notkun glers, málma og dúka í smíði innréttinga og innihurða
smíðisfestingum og fylgihlutum
helstu samsetningaraðferðum á innréttingum og innihurðum
mismunandi lími og límingaraðferðum við spónlagningu
mismunandi yfirborðsmeðferð á innréttingum og innihurðum
smíðaefnum sem notuð eru við gerð glugga og útihurða
samhengi milli snúnings-, skurðar- og mötunarhraða og yfirborðsgæða
samsetningaraðferðum á gluggum og útihurðum
yfirborðsmeðferð glugga og útihurða
gagnvörn smíðaviðar og efnum til yfirborðsmeðferðar
öryggisreglum og öryggisbúnaði við fúavörn og yfirborðsmeðferð
algengustu burðarkerfum fyrir niðurhengd loft og uppsetningu þeirra
hvernig á að leggja parket á stein og tré innanhúss
helstu gerðum af gegnheilu og fljótandi parketi og eiginleikum þeirra
efnum og áhöldum sem notuð eru við lagningu og slípun parkets
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
setja upp, smíða og meðhöndla innréttingar, glugga, hurðir og inniklæðningar
nota málma og plast við smíði glugga og útihurða
setja upp og klæða létta kerfisveggi innanhúss
velja smíðisfestingar og fylgihluti
velja límtegundir og límingaraðferðir fyrir mismunandi viðartegundir
nota vélar og verkfæri við ofantalda verkþætti
meðhöndla skaðleg efni
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
öðlast innsýn í bygginga- og brunamálareglugerð sem varðar innréttingar, glugga, hurðir og inniklæðningar
skipuleggja framleiðsluferli
velja viðeigandi efnissamsetningar og smíðisfestingar
öðlast innsýn í tæknilega viðarvernd við smíði útiglugga og útihurða
Mælt er með því að námsmat byggi á verkefnavinnu u.þ.b.80% og einu eða fleiri skriflegum prófum u.þ.b. 20%.