Í þessum áfanga kynnast nemendur nokkrum helstu viðfangsefnum siðfræðinnar og kenningum og hugmyndum er að þeim lúta, svo sem afstæðis- og algildishyggju, nytjastefnu, heillastefnu og lögmálskenningum, frelsi og réttlæti, samvisku, siðareglum, löstum og dyggðum. Litið er á kenningar þessar og hugmyndir í sögulegu samhengi og þær tengdar ýmsum siðferðislegum vandamálum samtímans, sem m.a. spretta af þróun samfélagshátta, tækni og vísinda. Fjallað verður sérstaklega um ýmis siðferðisleg álitamál sem tengjast m.a. fóstureyðingum, líknardrápi, þagnarskyldu, forgangsröðun, drykkjusýki, ofbeldi, sjálfsmorðum, refsingum, uppeldi, dýratilraunum, erfðabreytingum, gagnagrunnum, stríði o.s.frv. Nemendur flytja fyrirlestra byggða á völdum íslenskum siðfræðigreinum og andmælendur úr þeirra hópi varpa ljósi á efnið og reyna að skoða málið frá sem flestum hliðum. Einnig skrifa nemendur hugleiðingar um afmörkuð efni. Áhersla er lögð á hlutlæga og tillitssama samræðu; „aðgát skal höfð í nærveru sálar.“
SAGANÝ05 eða SAGA2SÖ05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
grundvallarhugtökum og kenningum siðfræðinnar og stöðu hennar innan heimspekinnar
helstu stefnum og straumum í siðfræði
nokkrum þáttum íslenskrar siðfræðiumræðu síðustu ára
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
rökræða siðferðisleg álitamál
tengja siðferðisleg rök við siðfræðikenningar
flytja fyrirlestra og ekki síður að andmæla fyrirlestrum á málefnalegan hátt
skrifa rökstuddar hugleiðingar
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
þroska siðvit sitt
nálgast erfið siðferðisleg vandamál, t.d. sjálfsmorð, sifjaspell eða drykkjusýki, af varúð, tillitsemi og hlutlægni
beita gagnrýnni hugsun og taka þátt í málefnalegri umræðu