Meginefni áfangans er félagsleg málvísindi og helstu efnisþættir ýmislegt sem fellur þar undir svo sem tvítyngi, framburðarmállýskur, þróun tungumálsins, innflytjendamál, samskipti manna, máltaka barna, dýramál og kynning á ólíkum gerðum rannsókna á þessu sviði. Þessu er fléttað saman við setninga- og hljóðfræði eins og þörf þykir. Lögð verður áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda, lestur fræðigreina og leitarnám.
ÍSLE3FO05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
rannsóknaraðferðum málmyndunarfræða
helstu einkennum íslensks máls sem nýtast í ræðu og riti, sem og til náms í erlendum tungum
ritgerðasmíð og heimildavinnu
tengsl orðaforða og málmyndunar við ólíka félagslega hópa
málfélagslegum hugtökum og félagslegu gildi málsins og hvernig það mótar sjálfsmynd einstaklinga
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
skrifa rannsóknarritgerðir þar sem hann beitir gagnrýnni hugsun við úrvinnslu og kemur efninu á framfæri á skýran og greinargóðan hátt á blæbrigðaríku máli
frágangi rannsóknarritgerða og hvers kyns texta og að nýta sér uppbyggilega gagnrýni annarra til betrumbóta
að nýta málfræðihugtök af öryggi í umræðum um málið og nota viðeigandi stílbrögð, orðatiltæki og menningarlegar vísanir í tal- og ritmáli
að draga saman og nýta á viðurkenndan og gagnrýninn hátt upplýsingar úr hvers kyns heimildum, hvort sem er í ræðu eða riti, og meta áreiðanleika þeirra
vinna með rannsóknartengt efni úr félagslegum málvísindum
beita málfélagslegum hugtökum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
skrifa skýran, vel uppbyggðan og grípandi texta og geta valið ritstíl eftir aðstæðum og viðtakendum
leggja mat á og efla eigin málfærni og annarra, til dæmis með því að nýta málfræðiupplýsingar og þekkingu sína á íslenska málkerfinu
beita málinu á viðeigandi og árangursríkan hátt við mismunandi aðstæður í ræðu og riti
sýna þroskaða siðferðisvitund, viðsýni og sköpunarhæfni í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum
afmarka eigin rannsóknarefni til að vinna með og setja fram niðurstöður með fræðilegum og formlegum hætti
geta gert grein fyrir íslensku hljóðkerfi, íslenskum framburði og mállýskum
Námsmat er tilgreint í kennsluáætlun og samræmist skólanámskrá.