Í áfanganum er fjallað almennt um ferðaþjónustu innanlands og uppbyggingu hennar. Rætt er um helstu starfsgreinar innan ferðaþjónustunnar og fengnir fyrirlesarar um sérstök efni. Sjónum er beint að Íslandi öllu en þó með höfuðáherslu á Norðurland. Í þessum áfanga er fyrst og fremst unnið með landafræði og náttúru svæðisins með ferðamennsku og möguleika innlendra sem erlendra ferðamanna að leiðarljósi. Saga og menning landsins fléttast að sjálfsögðu líka inn í viðfangsefnin og unnið er á öllum þeim tungumálum sem nemandinn lærir í skólanum eða hefur önnur tök á.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
landafræði, jarðfræði og náttúrufræði Íslands og hvað af því getur laðað að erlenda ferðamenn
menningu og sögu svæðisins
aðferðum, tækjum og tólum til að búa til árangursríkt kynningarefni og sjónum einkum beint að stafrænni framsetningu hvort sem er á vef eða myndböndum
mikilvægi góðrar tungumálakunnáttu, jafnt í íslensku sem erlendum málum, og færni til að beita henni við munnlega og skriflega kynningu
undirstöðuatriðum í framsögn, framkomu og flutningi kynningarefnis og frágangi á vefsíðum, myndböndum og öðrum myndmiðlum
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
flytja mál sitt á íslensku og erlendum tungumálum í þeim miðlum sem notaðir eru við hvert verkefni
greina skilmerkilega frá því sem fyrir augu ber í kynnisferðum
útbúa kynningarefni á mismunandi formi
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
segja með nákvæmni en áreynslulaust frá því helsta sem hrífa má ferðafólk
nýta sér gögn á vefjum og úr bókum til að bæta kynningar sínar og kynningarefni
útbúa fjölbreytt ferðagögn og kynningarefni
beita mismunandi aðferðum eftir ólíkum markhópum
meta kynningarefni ferðaþjónustuaðila á uppbyggilegan hátt
Námsmat er tilgreint í kennsluáætlun og samræmist skólanámskrá.