Áfanginn byggist upp á alhliða hreyfingu og heilsurækt með áherslu á almenna grunnþjálfun. Í bóklegum og verklegum hluta áfangans er fjallað um þol og þolþjálfun og hvernig byggja megi upp og viðhalda þoli. Farið er yfir mismunandi þjálfunaráhrif á loftháðu og loftfirrtu þoli ásamt almennu og sérhæfðu þoli. Fjallað er um líkamsbeitingu við styrktarþjálfun, mikilvægi styrks fyrir stoðkerfi líkamans og farið yfir mismunandi þjálfunaraðferðir. Lögð er áhersla á að tengja saman fræðilega og verklega þætti. Einnig er farið yfir mikilvægi liðleika og liðleikaþjálfunar fyrir líkamann og áhrif liðleikaæfinga á vöðva og liðamót. Nemendur taka þátt í verklegum æfingum sem þjálfa alla þætti grunnþjálfunar og læra aðferðir til að meta eigin líkamsþrek. Nemendur fræðast markvisst um forvarnargildi íþrótta, líkams- og heilsuræktar og einnig um neikvæð áhrif vímuefna á líkamann. Verkefnavinna byggist á hvatningu til að efla andlega, líkamlega- og félagslega vellíðan sína til framtíðar.
Nemendur geta valið um eftirfarandi leiðir:
1) Hefðbundnar íþróttir, líkams- og heilsurækt (kennsla í íþróttahúsi og kennslustofum Miðbæjarskólans og utandyra).
2) Skipulagða íþróttaiðkun innan íþróttafélags ásamt bóklegri kennslu (stunda íþróttagrein innan sérsambanda ÍSÍ, keppni á Íslandsmóti og æfa undir leiðsögn íþróttafræðings).
Í öllum áföngum er minnt á mikilvægi svefns og slökunar.
Engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
mikilvægi upphitunar og liðleikaþjálfunar
styrktarþjálfun
fjölbreytni allra þátta til eflingar líkama og heilsu
þoli, uppbyggingu þess og mismunandi þolþjálfun
forsendum og áhrifum þjálfunar á líkama og heilsu
neikvæðum áhrifum ávana- og vímuefna á líkamann
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
tileinka sér fjölbreytta grunnþjálfun allra þátta
taka þátt í almennri og sérhæfðri upphitun
taka þátt í markvissri þolþjáfun og sérhæfðri þolþjálfun íþróttagreina
taka þátt í markvissri og fjölbreyttri styrktarþjálfun
taka þátt í leikjum og æfingum sem hafa áhrif á jákvæða upplifun og viðhorf til líkams- og heilsuræktar
mæla þol, styrk og liðleika
taka þátt í hreyfingu og æfingum sem stuðla að bættri líkamsbeitingu
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
skipuleggja og leysa af hendi verkefni sem snúa að eigin heilsueflingu
stunda æfingar og leiki sem viðhalda og bæta líkamlega-, andlega- og félagslega þætti