Nemendur læra um vægi forma og hlutfalla í mynd á fleti og í rými. Þeir kynnast sjónrænum áhrifum þessara þátta og aðferðum við að nota þau áhrif meðvitað í myndbyggingu. Unnið er að æfingum í myndbyggingu með mismunandi útfærslum. Kannaðar eru mismunandi aðferðir, þar sem fjallað er um jafnvægi, ójafnvægi, léttleika og þunga, samstæður og andstæður lita og forma. Kannaðar eru stærðir og hlutföll forma í rými og í lok áfangans er unnið frá tvívíðri formfræði yfir í þrívídd. Verkefni í myndbyggingu eru einnig tengd dæmum úr listasögu og umhverfi samtímans.
Nemendur vinna í skissubók, skrá framvindu verkefna og hugmyndir sínar sem tengjast námsefni skriflega, með skissum og ljósmyndum. Einnig vinna nemendur með litablöndun, mynstur og form. Nemendur blanda liti með tilliti til litatóna, ljóss og dimmu. Kannaðir eru eiginleikar litanna í notkun þeirra, vægi og áhrif þeirra innbyrðis sem út á við og frá sem flestum sjónarhornum. Kannaðar eru andstæður og samstæður í litum. Samtímis litablöndun og tilraunum eru tekin dæmi um notkun lita og myndbyggingar með dæmum úr lista- og hönnunarsögu frá ýmsum tímum.
engar
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
forsendum óhlutbundinnar myndbyggingar
afstöðu hluta og stærðarhlutföllum á blaði
þáttum eins og jafnvægi og þunga forma og lita
túlkun hugmynda með einföldum línum og formum í mynd
klassískum fegurðarlögmálum og notkun þeirra í myndlist, hönnun og byggingarlist
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita litum til að ná fram mismunandi áhrifum
nýta sér andstæðuliti til að ná fram áhrifum
beita litum á einföld form til að ná fram mismunandi áhrifum
beita andstæðum skærra og dempaðra lita
nota mismunandi efni til að ná fram ólíkum áhrifum og áferðum
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
nota og meðhöndla mismunandi efnistegundir bæði í tvívíðum og þrívíðum verkum
greina út frá táknfræðilegum forsendum hvaða áhrif mismunandi litir og mismunandi efni hafa
rökstyðja skoðun sína um málefni sem tengjast mismunandi merkingu lita, forma og efnis
sýna fram á forsendur jákvæðrar litablöndunar ljóss
sýna fram á forsendur neikvæðrar litablöndunar málningar
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.