Í áfanganum er fjallað um framkomu leiðbeinanda um borð í hvalaskoðunarbát og hópstjórnun. Einnig er fjallað almennt um ferðaþjónustugeirann á Íslandi, mismunandi væntingar ferðamanna, dagleg störf um borð í hvalaskoðunarbát, hentugan klæðnað í sjóferðum, helstu rannsóknarverkefni tengd hvölum á Skjálfanda, hegðun og umgengni á hvalaslóðum og helstu tegundir báta sem notaðar eru við hvalaskoðun á Skjálfanda. Auk þess er farið yfir grunnatriði varðandi skyndihjálp. Lögð er áhersla á að nemendur geti tjáð sig um viðfangsefni áfangans á ensku.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
helstu atriðum sem einkenna örugga framkomu og góða framsögn
helstu atriðum sem hafa þarf í huga varðandi hópstjórnun og ólíkar væntingar hvalaskoðunargesta
helstu tegundum ferðaþjónustu á Íslandi
þeim störfum sem unnin eru um borð í hvalaskoðunarbát
grunnatriðum um siglingu báta
helstu tegundum báta sem notaðar eru við hvalaleiðsögn á Skjálfanda
helstu rannsóknarverkefnum tengd hvölum sem í gangi eru hverju sinni við Skjálfanda
IceWhale Code of Conduct varðandi hegðun á hvalaslóðum
helstu atriðum varðandi öryggi og þægindi farþega um borð í hvalaskoðunarbát
hentugum klæðnaði í sjóferðum
grunnatriðum skyndihjálpar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
stjórna hóp um borð í hvalaskoðunarbát á ensku
sýna af sér góða framkomu og þjónustulund
framkvæma mat og skoðun á slösuðum eða veikum einstaklingi
flytja slasaðan eða veikan einstakling á öruggan hátt
framkvæma blástursmeðferð og hjartahnoð og beita hjartastuðtæki
losa aðskotahlut úr öndunarvegi
búa um sár og stöðva blæðingu
veita viðeigandi meðferð við losti
spelka útlimi eftir áverka eða tognanir
veita fyrstu hjálp vegna brunasára, kals, ofkælingar og ofhitnunar.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
stjórna hóp af farþegum um borð í hvalaskoðunarbát með jákvæðri og öruggri framkomu
veita farþegum fullnægjandi upplýsingar um það sem fyrir augu ber
taka við grunnstjórn báts ef skipstjóri forfallast eftir að ferð er hafin
meta aðstæður og bregðast við þeim á réttan hátt ef slys eða bráð veikindi ber að höndum.
Í áfanganum er gert ráð fyrir leiðsagnarmati sem byggist á því að nemandinn fái með skipulegum og reglulegum hætti upplýsingar frá kennara um hvernig hann stendur í náminu. Áfanginn kann að vera kenndur í fjarnámi en þá er áhersla lögð á verklega þjálfun í staðbundnum lotum.