Í áfanganum eru keppnisgreinar hárfagsins skoðaðar frá ýmsum hliðum og nokkrar þeirra æfðar. Nemendur áfangans eru misjafnlega langt komnir í faginu og er komið til móts við þá þar sem þeir eru staddir í vali á verkefnum. Þeir þjálfast í að rýna í og fara eftir keppnisreglum, dæma verk sín og annarra, undirbúa sig fyrir keppni og keppa. Nemendur skoða hársýningar með gagnrýnum augum, fá að vera þátttakendur í tilfallandi sýningum og skipuleggja að lokum sýningu á eigin verkum og setja hana upp.
Þetta er valáfangi sem veitir nemendum aukinn styrk og möguleika á að taka þátt í keppnum hérlendis og erlendis. Áfanginn styrkir einnig nemandann gagnvart ýmsum verkefnum hársnyrtibrautarinnar og veitir honum aukna möguleika á að koma sér á framfæri í faginu.
HÁRG2FB03DH
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
ólíkum keppnisgreinum í hári.
algengustu reglum í hársnyrtikeppnum.
undirbúningi fyrir keppni.
hvernig dómur er unninn.
hvað einkennir góða hársýningu.
skipulagningu sýningar.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
afla gagna og leita lausna við hönnun og gerð keppnisverkefna.
framkvæma valdar keppnisgreinar.
beita öguðum og skipulegum vinnubrögðum við undirbúning og framkvæmd keppnisverkefna og sýningar.
kynna verk sitt fyrir áhorfendum og lýsa því hvernig það er unnið.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
taka þátt í keppni.
setja upp sýningu.
geta unnið innan tímaramma og tekist á við tímapressu.
eiga auðveldara með að koma fram og tjá sig um verk sín.