Áfanginn er sá hluti rafvélakennslunar sem kenndur er á verkstæði með aðstöðu til að taka sundur tæki og til viðgerða minni og stærri rafvéla og raftækja. Í áfanganum er lögð áhersla á undirstöðuatriði er varða jafnstraumsvélar og einfasa riðstraumshreyfla í hinum ýmsu raftækjum. Einnig er lögð áhersla á viðgerðir og viðhald þriggjafasa rafvéla s.s. leguskipti og ýmsar mælingar. Þá er lögð áhersla á að nemendur æfist í að nota mælitæki og verkfæri rafiðnaðarmanna, greina bilanir og gera við raftæki og venjist við að taka tillit til öryggissjónarmiða við viðgerðir svo og kostnaðarmat. Gerð er grein fyrir þýðingu merkiskilta á vélum og tækjum. Farið er yfir öryggisatriði í umgengni á spennum , bæði stórum og smáum.
RRVV2RS05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
lögum og reglugerðum
öryggiskröfum sem gerðar eru til laustengdra tækja
merkingum rafbúnaðar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
beita verkfærum og mælitækjum er leiða í ljós ástand rafvéla og raftækja
hafa gott vald á vélum og verkfærum sem notuð eru í störfum rafiðnaðarmanna
hafa skilning á hættum er fylgi því að umgangast raftæki
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
bilanagreina og meta ástand hinna ýmsu rafvéla og tækja
annast viðhald og uppsetningu rafbúnaðar
Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat með leiðsögn. Námsmatið er í höndum kennara viðkomandi áfanga en þarf að fylgja þeim reglum sem kveðið er á um í skólanámskrá VMA.