Þetta er grunnáfangi í eðlisfræði á náttúruvísindabraut. Í áfanganum er lagður grunnur að hreyfifræði, aflfræði og ljósfræði og lögð áhersla á að nemendur tileinki sér góð vinnubrögð í verkefnavinnu sem gagnist þeim til frekara náms.
STÆR2AF05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
Einingum í SI-kerfinu, markverðum tölustöfum, stigstærðum og vigurstærðum.
Hreyfifræði í einni vídd.
Lögmálum Newtons, þyngdarkrafti, þverkrafti, núningskrafti og núningstuðli.
Vinnu, orku, afli og orkuvarðveislu.
Lögmáli Hookes, kraftstuðli, fjaðurkrafti og spennuorku.
Atlagi, skriðþunga og árekstrum.
Lögmáli Arkimedesar, uppdrifi og þrýstingi.
Helstu lögmálum um eðli ljóss.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
Nota markverða tölustafi og réttar einingar við úrlausn verkefna.
Framkvæma verklegar æfingar og vinna úr mæliniðurstöðum þeirra.
Setja fram og túlka gröf sem lýsa hreyfingu hlutar í einni vídd.
Nota lögmál og hugtök námsefnisins á réttan hátt við úrlausn verkefna.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
Meta hvort niðurstöður mælinga og útreikninga séu raunhæfar.
Beita skipulögðum aðferðum við úrlausn verkefna, geta rökstutt aðferðirnar og túlkað niðurstöðurnar.
Gera sér grein fyrir notagildi eðlisfræðinnar og tengslum hennar við daglegt líf.
Námsmat er útfært í kennsluáætlun í samræmi við skólanámskrá.