Lögð er áhersla á að nemandinn verði læs á hagnýta þætti er snúa að fjármálum þar sem hann sjálfur er í brennidepli. Hann öðlist getu til að greina valkosti í fjármálum og á þeim grunni gert áætlanir um fjármál sín t.d. ráðstöfun tekna, sparnað, greiningu á lánamöguleikum, áhrif vaxta og verðtryggingar. Áherslan í áfanganum er hagnýting og almenn þekking í tengslum við stöðu og þróun í samfélaginu. Þannig verði nemandinn meðal annars læs á hagræna þætti sem snúa að lífi hans og framtíðaráætlunum. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur skipuleggi vinnu sína og læri að nýta sér þau hjálpartæki sem í boði eru.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
einföldum fjármálum daglegs lífs
launaútreikningi og réttindum og skyldum á vinnumarkaði
þáttum sem tengjast skuldbindingu í fjármálum s.s. veði, ábyrgð og greiðslukortum
sparnaði, lántöku, vöxtum og verðbótum
tilgangi skatts og annars frádráttar
fjármálahugtökum ásamt umfjöllun um auglýsinga og neyslusamfélagið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
afla sér upplýsinga til nauðsynlegra útreikninga
reikna vexti og afslátt, fram reikna lán og skuldir
gera sér grein fyrir eigin fjárhag og útgjöldum
skipuleggja, taka réttar ákvarðanir og bera ábyrgð á eigin fjármálum og neyslumynstri
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
gera sér grein fyrir því hvers vegna fjármál hans skipta máli
hvernig hann getur staðið að því að vera upplýstur um þau og hvað þurfi til að taka vandaðar ákvarðanir sem fela í sér skynsama fyrirhyggju
skipuleggja fjármál sín með hagsýni
tileinka sér ábyrgð á eigin fjármálum
Námsmat er tilgreint í kennsluáætlun og samræmist skólanámskrá.