Í áfanganum verður áfram unnið með þá hæfni sem nemendur hafa tileinkað sér í fyrri áföngum í ensku og lögð áhersla á alla færniþætti tungumálanáms. Einkum verður þó lögð áhersla á að nemendur öðlist hæfni í að tjá sig á gagnrýninn hátt í ræðu og riti um viðfangsefnið. Meginmarkmið áfangans er að nemendur kynnist sögu, menningu og réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum með lestri bókmenntaverka, svo sem skáldsagna, ævisagna, æviágripa, leikrita, smásagna, greina, ljóða og dægurtexta eftir bandaríska höfunda af afrískum uppruna. Í tengslum við lesturinn munu nemendur rýna í og vinna með heimildamyndir og/eða kvikmyndir um ævi og störf þekktra svartra bandaríkjamannna. Einnig verður horft á kvikmyndaaðlaganir að bókmenntaverkum þeirra og rýnt í tónlist svartra, til að mynda blues, jazz, soul, pop, reggae og rapp. Kröfur áfangans samsvara hæfnisþrepi C1 í Evrópska tungumálarammanum (CEFRL).
ENSK3AC05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
orðaforða, hugtökum og hugmyndafræði sem einkenna menningu svartra í Bandaríkjunum fyrr og nú
sögu afrískra ameríkana í Bandaríkjunum fyrr og nú
menningu svartra í Bandaríkjunum fyrr og nú
réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum fyrr og nú
áhrifum sögu, menningar og réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum á fjölmenningarlegt samfélag Bandaríkjanna
áhrifum réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum á réttindabaráttu annarra minnihlutahópa í alþjóðasamfélaginu
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa sér til fræðslu og ánægju texta sem tengjast sögu, menningu og réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum fyrr og nú
gera grein fyrir viðfangsefnum sínum á lipurri og hnökralausri ensku
kafa dýpra ofan í viðkomandi viðfangsefni og leita fanga víðar en áður
sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og geta dregið ályktanir
nýta sér fyrirlestra, umræður og rökræður um viðfangsefnið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
öðlast heildaryfirsýn yfir sögu, menningu og réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum fyrr og nú
beita málinu af lipurð og kunnáttu til að geta tekið fullan þátt í umræðum og rökræðum um viðfangsefnið
flytja vel uppbyggða frásögn, kynningu eða greinargerð, draga fram aðalatriði og rökstyðja mál sitt nokkuð nákvæmlega með dæmum og bregðast við fyrirspurnum um viðfangsefnið
geta tjáð tilfinningar, notað hugarflug og beitt stílbrögðum í túlkun sinni á viðfangsefninu
skrifa texta með röksemdafærslu um viðfangsefnið þar sem fram koma rök með og á móti og þau eru vegin og metin