Meginmarkmið áfangans er að nemendur lesi frönsku sér til ánægju og gagns og þjálfist í að nota tungumálið til að tala um efni sem þau hafa lesið og kynnt sér. Áfanginn er að töluverðu leyti einstaklingsmiðaður þar sem nemendur velja að stórum hluta það efni sem þau vinna með í samráði við kennara. Áfanginn hentar því vel þeim nemendum sem langar að efla og dýpka frönskukunnáttu sína á eigin forsendum og kynnast betur mannlífi og menningu frönskumælandi landa. Unnið er með einfaldar skáldsögur, smásögur, ævintýri, barnabækur, myndasögur, tímaritsgreinar o.fl. Einnig horfa nemendur á a.m.k. eina kvikmynd eða nokkra sjónvarpsþætti og fjalla um myndefnið á svipaðan hátt og lesefnið. Ekki er um hefðbundnar kennslustundir að ræða heldur er áfanginn símatsáfangi þar sem nemendur kynna verkefni sín í viðtölum við kennara. Einnig vinna þau skriflegar samantektir um viðfangsefnin sem mynda safnmöppu sem skilað er í lok annar. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og góða mætingu í viðtölin. Hægt er að velja áfangann sem 3 eða 5 einingar.