Meginmarkmið áfangans er að nemendur lesi rauntexta á frönsku sér til ánægju og gangs og þjálfist í að nota tungumálið til að tala um efni sem þau hafa lesið og kynnt sér. Nemendur lesa ýmiss konar texta, svo sem skáldsögur, smásögur, tímaritsgreinar og fræðsluefni á netinu. Nemendur velja að stórum hluta það efni sem þau vinna með. Nemendur vinna sjálfstætt með textann hverju sinni og kynna niðurstöður í viðtali við kennara. Einnig gera nemendur skriflegar greinargerðir sem er svo safnað saman og skilað sem safnmöppu í lok áfangans. Gerðar eru kröfur um töluverða leikni í tungumálinu. Áfanginn er símatsáfangi sem byggir á munnlegum og skriflegum verkefnum ásamt raunmætingu. Hægt er að velja hann sem 3 eða 5 einingar.
FRAN2YF03/05 eða staðgóð frönskuþekking, t.d. vegna búsetu í frönskumælandi landi
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
ólíkum textagerðum, s.s. skáldsögum, smásögum, tímaritsgreinum og efni á netinu
þeim orðaforða sem er nauðsynlegur til að mæta markmiðum áfangans
mannlífi og menningu frönskumælandi landa
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa margs konar texta og vinna úr þeim á mismunandi hátt
greina ítarlega frá efni texta sem nemandi hefur unnið með, bæði munnlega og skriflega
taka þátt í ítarlegum samræðum um efnið og setja fram og rökstyðja eigin skoðun
nota hjálpargögn, svo sem orðabækur, við úrvinnslu texta
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
fjalla á ítarlegan hátt, munnlega og skriflega, um margskonar efni sem nemandi hefur kynnt sér sjálfstætt
vera þátttakandi í frönskumælandi samfélagi með yfirsýn yfir aðstæður og viðburði samfélagsins hverju sinni
skilja ýmis blæbrigði málsins eftir málsvæðum og aðstæðum
geta tjáð sig óundirbúið um efni á tungumálinu og lýst skoðun sinni og annarra