Í þessum valáfanga í erfðafræði fyrir náttúruvísindabraut er gerð grein fyrir viðfangsefnum erfðafræðinnar og farið í helstu hugtök og undirstöðuatriði erfða. Helstu efnisþættir eru : ágrip af sögu erfðafræðinnar, erfðafræði Mendels, gen, litningar, frumuskipting, víkjandi, ríkjandi og kyntengdar erfðir, litningavíxl, stökkbreytingar og litningabreytingar, DNA og RNA, afritun, umritun og þýðing, genatjáning, erfðafræði örvera, grunnatriði erfðatækni, príon, krabbameinsgen og vefjaflokkar og siðfræði erfðarannsókna. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu og skilning á einföldum erfðalögmálum, uppbyggingu erfðaefnis og hvernig erfðaefnið flytur upplýsingar milli kynslóða. Nemendur skilji hvernig erfðaefni hefur áhrif á fjölbreytileika lífvera og hvernig svo fjölbreytilegar lífverur hafa orðið til. Kynnt er mikilvægi þekkingar á erfðafræði fyrir viðfangsefni daglegs lífs og hvaða möguleika erfðafræðin gefur til framtíðar. Nemendur verði búnir undir frekara nám í erfðafræði.
LÍFF2GR05 eða LÍFF2GF04
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
kenningum Mendels og grunnhugtökum erfðafræðinnar
genum, litningum, mítósu og meiósu
mismunandi erfðamynstrum
litningavíxlum, stökkbreytingum og litningabreytingum
byggingu DNA og RNA
eftirmyndum, umritun og þýðingu
erfðum örvera
grundvallaratriðum í erfðatækni
tjáningu gena
príonum
ýmsum meingenum
tengslum erfða og þróunar
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
lesa erfðafræðilegar upplýsingar úr máli og myndum
rekja einfaldar erfðir
segja fyrir um líkur á erfðum tengdra og ótengdra eiginleika
tengja saman basaröð í DNA og amínósýrusamsetningu próteina
gera grein fyrir hvernig nýta má örverur í rannsóknum í erfðafræði
fjalla um siðfræðileg álitamál erfðatækninnar
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
auka skilning sinn á erfðafræðilegum viðfangsefnum
geta tekið rökstudda afstöðu til erfðafræðilegra dægurmála
tengja undirstöðuþekkingu í erfðafræði við daglegt líf og átta sig á notagildi hennar
taka ábyrgð á eigin lífi m.t.t. erfðafræðilegra þátta