Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Heilsunuddbraut (Staðfestingarnúmer 42) 16-42-3-9 heilsunuddari hæfniþrep 3
Lýsing: Markmið náms á heilsunuddbraut er að gera nemandann hæfan í starfsgrein sinni og þjálfa þá verklegu færni sem er grunnur starfsins. Starfsvettvangur heilsunuddara er fjölbreyttur og tekur nám og kennsla mið af því. Mikil áhersla er lögð á heildræna yfirsýn og þá staðreynd að hver skjólstæðingur er einstakur og hefur þörf fyrir einstaklingsmiðaða meðferð. Nemendur tileinka sér nuddaðferðir og krafist er ákveðinnar líkamlegrar lágmarksfærni í verklegum áföngum. Áhersla er lögð á að þjálfa rétta líkamsbeitingu sem er mikilvæg í starfi heilsunuddara. Sá sem lýkur námi á námsbrautinni hlýtur starfsheitið heilsunuddari og hefur, skv. reglum Félags íslenskra heilsunuddara (FÍHN), rétt til að setja á stofn og starfrækja nuddstofu. Þegar nemendur útskrifast af brautinni fá þeir í hendur starfsmenntaskírteini samhliða prófskírteini, sem þeir geta haft uppi á starfsstöð sinni til staðfestingar á því að þeir hafi lokið námi á heilsunuddbraut. Heilsunuddarar starfa bæði sjálfstætt og sem launþegar. Starfsvettvangur þeirra er á heilsunuddstofum eða öðrum stöðum sem veita heilsutengda þjónustu, s.s. heilsustofnunum, líkamsræktarstöðvum eða heilsulindum. Hverjum útskrifuðum heilsunuddara er frjálst að ganga í Bandalag íslenskra græðara (BÍG) og starfa jafnframt sem skráður græðari. Um græðara gilda þingfest lög nr. 34 frá árinu 2005. Hægt er að taka viðbótarnám til stúdentsprófs meðfram námi á brautinni eða að því loknu.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Skilyrði til innritunar í nám á heilsunuddbraut er að nemandi hafi lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í kjarnagreinum þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða að hafa lokið fyrsta þreps áfanga í viðkomandi grein. Ljúka þarf bóklegum áföngum brautarinnar áður en verklegt nám getur hafist. Nemendur verða að hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja verknám á þriðja hæfniþrepi.
Skipulag: Nám á heilsunuddbraut er samtals 200 framhaldsskólaeiningar, 45 á fyrsta þrepi, 90 á öðru þrepi og 65 á því þriðja. Í sumum áföngum er bóknámi og verknámi fléttað saman. Flestir verknámsáfangar eru á þriðja þrepi og að stórum hluta þannig uppbyggðir að nemendur æfa sig á hver öðrum. Sérgreinar heilsunuddbrautar eru 71 feining, auk 23 feininga starfsþjáfunar, samtals 94 feiningar. Hinar 106 feiningarnar eru sameiginlegar öðrum brautum, aðallega starfsmenntabrautum á heilbrigðissviði. Markviss verkþjálfun hefst á lokaönn verknámsins og fer í upphafi fram í nuddaðstöðu skólans en færist síðan út á stofur og stofnanir þar sem heilsunuddarar starfa. Náminu lýkur með því að nemendur eru í handleiðslu í skóla eða hjá viðurkenndum meðferðaraðila í eina önn eftir að verknámi lýkur og starfsþjálfun er hafin.
Námsmat Með námsmati er kannað að hve miklu leyti nemandi hefur náð settum hæfniviðmiðum áfangans og það stuðlar að því að veita leiðbeinandi upplýsingar um framvindu námsins. Kennarar eru hvattir til að meta frammistöðu nemenda með fjölbreyttum aðferðum með hæfniviðmið áfanga að leiðarljósi. Mat á verklegri færni fer t.d. fram með því að fylgst er með framförum og/eða fagfólk í greininni er fengið til að meta verklag og gæði í nuddvinnu nemenda. Í verklegum áföngum er vinnuframlag og ástundun nemenda hluti af námsmati, enda er mikilvægt að nemendur mæti vel til að þjálfa verklega færni sína hver á öðrum. Með því móti fá þeir bæði endurgjöf á vinnu sína og aðstoða samnemendur við að bæta verklag sitt. Námsmat byggir að auki á nuddskýrslum, skriflegum eða munnlegum prófum, gagnaprófum, hlutaprófum, lokaverkefnum, kynningum, sjálfsmati, jafningjamati og leiðsagnarmati.
Starfsnám: Markmið starfsnáms er að nemandinn fái tækifæri til að þroska hæfni sína við raunverulegar aðstæður, fyrst undir leiðsögn kennara á nuddstofu skólans en síðar á nuddstofum utan skólans. Starfsþjálfunin á að brúa bilið milli náms og starfs þannig að nemandi geti við útskrift gengið sjálfstæður og öruggur með þjálfaða verkfærni út í atvinnulífið. Starfsþjálfun fer fram í þremur áföngum. Markviss verkþjálfun hefst á verknámstímanum á nuddstofu skólans, þar sem almenningur getur fengið nudd hjá nemum. Seinni hluti markvissrar verkþjálfunar fer fram í skóla samhliða starfsþjálfun á stað sem veitir nuddþjónustu og spannar það eina önn. Nemandi er þá í vinnu sem launaður nemi á starfsstöð sem býður upp á heilsunudd. Á sama tíma kemur hann reglulega í skólann til handleiðslu eða sækir stuðning til annars viðurkennds meðferðaraðila. Á starfsþjálfunartímanum heldur nemandi ferilbók og ræðir reynslu sína í hópi nemenda og kennara í skólanum.
Reglur um námsframvindu: Um lágmarkseinkunn í áföngum gilda skólareglur. Í þrepaskiptu námi er gert ráð fyrir því að hæfni og sérhæfing fari stigvaxandi. Verknám og starfsþjálfun eru aðallega á þriðja þrepi. Í verknámi eru sérstaklega strangar kröfur um viðveru. Hægt er að taka viðbótarnám til stúdentsprófs samhliða eða eftir lok náms á heilsunuddbraut.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • leggja mat á heilbrigðisástand fólks sem til hans leitar og geta nýtt sér það við meðhöndlun
  • beita fjölbreyttri nuddtækni sem miðar að því að lina þrautir, veita slökun og efla heilbrigði
  • bregðast við ólíkum umkvörtunarefnum nuddþega varðandi verki og spennu í vöðvum og meðhöndla á viðeigandi hátt
  • upplýsa skjólstæðinga um áhættuþætti varðandi heilbrigði og veita þannig fyrirbyggjandi ráðgjöf
  • beita verkfærni sinni af öryggi og næmni
  • skrá meðferðarskýrslur samkvæmt viðurkenndum staðli
  • bera ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan
  • virða fagleg og siðferðileg mörk sem í starfinu felast
  • gera grein fyrir starfskenningu sinni
  • setja á stofn og reka nuddstofu

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

200  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Heilsunuddbraut
Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Nei, frjálst val er ekki leyft

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
  • kenna notkun töflureikna, verslunarreikning og bókfærslu
  • kenna nemendum lestur tölulegra upplýsinga, t.d. úr rannsóknum, og notkun þeirra máli sínu til stuðnings
  • leggja áherslu á að nemendur geti aflað sér gagna og flokkað upplýsingar, t.d. hvað varðar næringu og heilsufar
Námshæfni:
  • leggja áherslu á sjálfsstyrkingu nemenda
  • kynna nemendum fjölbreyttar aðferðir sem leiða að svipuðu marki
  • setja nemendum fyrir fjölbreytt verkefni og beita fjölbreyttum kennsluháttum
  • hvetja nemendur til að þekkja þær hindranir, huglægar og tilfinningalegar, sem þeir setja sjálfum sér
  • tengja saman huga og hönd
  • ræða hagnýtt gildi þeirrar þekkingar, leikni og hæfni sem nemendur eiga að tileinka sér
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
  • hvetja nemendur til að sjá hlutina í heildrænu samhengi
  • veita nemendum víðtækan undirbúning fyrir fjölbreyttan starfsvettvang heilsunuddara
  • meta og rökstyðja ýmis heilsutengd úrræði
  • nemendur kynna sér og ræða gagnrýni á þær meðferðarforsendur sem liggja nuddfögunum til grundvallar
  • flétta markaðsfræði og rekstri inn í suma áfanga
  • kynda undir forvitni nemenda um mannslíkamann
  • skapa svigrúm til að útfæra nuddaðferðir sem byggja á eigin rökstuddum ásetningi
Jafnrétti:
  • jafna kynjahlutföll í verklegu námi eftir föngum
  • nýta styrkleika beggja kynja í verklegum áföngum
  • leggja áherslu á rétta siðferðilega breytni í námi og starfi heilsunuddara
  • hvetja nemendur í verklegu námi til að vinna með öllum án fordóma
  • nota fjölbreyttar kennsluaðferðir
Menntun til sjálfbærni:
  • kynna nemendum mikilvægi vistverndar
  • vinna með lífrænar olíur, krem og annan náttúrulegan útbúnað
  • leggja áherslu á góða líkamsbeitingu nemenda
  • kynna heildræna hugsun sem nær út fyrir sérhagsmuni hins litla sjálfs
  • gera nemendur meðvitaða um umhverfi sitt
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
  • undirbúa nemendur undir lestur fagtexta á erlendum tungumálum, t.d. sem hluta af sí- eða endurmenntun þeirra
  • nota einnig latnesk og ensk heiti í sérhæfðum áföngum brautarinnar til að nemendur geti átt í víðari samskiptum við fagfólk erlendis
  • búa nemendur undir að taka á móti og eiga í samskiptum við nuddþega með annað móðurmál en íslensku
Heilbrigði:
  • fjalla um heilbrigði og sjúkdóma á heildrænan hátt
  • benda á leiðir til að ástunda og ráðleggja öðrum varðandi heilbrigðan lífsstíl
  • kenna nuddaðferðir til að mýkja vöðva og lina verki
  • leggja áherslu á að sérhver einstaklingur ber ábyrgð á eigin heilsu
  • leggja áherslu á heilbrigði sem samspil líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta
  • bjóða upp á fjölbreytta heilsuræktaráfanga, s.s. jóga, fjallgöngur, líkamsrækt og hvetja nemendur til að hjóla eða ganga í skólann
  • leggja áherslu á hreinlæti
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
  • láta nemendur útskýra gildi þeirra meðferða sem þeir veita skjólstæðingum sínum
  • leggja áherslu á virk samskipti kennara, nemenda og skjólstæðinga
  • með því að leggja áherslu á að nemendur hlusti vel á væntingar skjólstæðinga varðandi meðferð
Lýðræði og mannréttindi:
  • kynna og stuðla að valdeflingu nemenda
  • leggja áherslu á að nemendur dæmi ekki aðra og sýni umburðarlyndi
  • láta nemendur taka virkan þátt í umræðum og endurgjöf þannig að þeir hafi með virkni sinni áhrif á framvindu námsins