- Nútímasamfélag byggir á stöðugri miðlun upplýsinga í formi texta og talna. Til þess að geta talist virkur samfélagsþegn þurfa einstaklingar að vera læsir á þær upplýsingar sem stöðugt berast í gegnum fjölbreytta miðla. Skólinn leggur áherslu á að gera nemendur færa um að afla og skilja þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru í námi, starfi og daglegu lífi.
- Í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta er meðferð talna þjálfuð í námsgreinum á borð við stærðfræði og eðlis- og efnafræði. Jafnframt reynir á upplýsingaleit og gagnaöflun í námsgreinunum lífsleikni og listum, menningu og vísindum og fleiri greinum.
|
- Námshæfni felur í sér að þekkja eigin styrk- og veikleika. Eitt af einkunnarorðum skólans er hugrekki en með eflingu hugrekkis er átt við:
- „Að efla sjálfstraust og sjálfsvirðingu nemenda með því að hvetja þá til þess að sýna sjálfum sér og öðrum umhyggju og virðingu“.
- Einnig „að nemendur fái þá hvatningu og stuðning sem þarf til að þeir sjái hvers þeir eru megnugir“.
- Ennfremur „að nemendur hafi kjark og þor til að tjá tilfinningar sínar og skoðanir, standa með sjálfum sér og lifa heilbrigðu lífi“.
- Í skólanum er markvisst unnið að því að efla sjálfstraust og sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum. Kennslu- og námsmatsaðferðir eru fjölbreyttar og reyna á ýmiss konar hæfni. Við skólann starfar náms- og starfsráðgjafi sem hefur m.a. það hlutverk með höndum að leiðbeina nemendum varðandi námstækni og skipulag. Í námsgreininni lífsleikni er einnig fjallað sérstaklega um þessi atriði. Í öllum námsgreinum reynir jafnframt á sjálfstæði nemenda og skipulagshæfni og aukast kröfurnar í þeim efnum eftir því sem lengra líður á námið.
|
- Hluti af menntasýn skólans felst í að hlúa að styrkleikum hvers og eins og hvetja nemendur til skapandi hugsunar og skapandi starfs. Jafnframt að að hvetja nemendur til þess að sjá nýjar lausnir á fjölbreyttum verkefnum.
- Í sameiginlegum kjarna allra stúdentsbrauta er áfangi í listum, menningu og vísindum þar sem markvisst er unnið með skapandi hugsun. Í þessum áfanga eru nemendur hvattir til að virkja sköpunargáfu sína og efla gagnrýna hugsun með fjölbreyttum verkefnum og verkefnamiðuðu námsmati. Jafnframt er leitast við að vinna með sköpun í sem flestum námsgreinum enda er skapandi hugsun forsenda þess að framfarir geti orðið í námi og starfi.
|
- Í skólastarfinu öllu, jafnt námi sem almennum rekstri skólans, er lögð áhersla á sjálfbærni og sjálfbæra hugsun. Unnið er að því að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar, bæði gagnvart samfélaginu og umhverfi sínu.
- Þær námsgreinar í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta sem fjalla sérstaklega um sjálfbærni eru umhverfisfræði, lífsleikni og listir, menning og vísindi. Í umhverfisfræði er fjallað um samspil manns og umhverfis og ábyrgð mannsins gagnvart komandi kynslóðum. Í lífsleikni er áhersla lögð á að bera virðingu fyrir samborgurum sínum og umhverfi og í listum, menningu og vísindum er fjallað um umhverfismál og nýtingu auðlinda bæði fyrr og nú.
|
- Kunnátta í erlendum tungumálum og innsýn í menningu annarra þjóða er ein af forsendum þess að fólk geti átt farsæl samskipti og samvinnu við fólk af öðru þjóðerni. Jafnframt er nauðsynlegt að búa yfir færni í erlendum tungumálum, sérstaklega ensku, til þess að geta stundað nám á háskólastigi.
- Í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta taka nemendur 20 einingar í ensku, 5 einingar í Norðurlandamáli (dönsku) og 15 einingar í þriðja máli (þýsku). Þar að auki nota nemendur erlend tungumál, einkum ensku, í ýmsum öðrum námsgreinum og þá sérstaklega við öflun upplýsinga af veraldarvefnum. Tungumálanám hefur það að markmiði að búa nemendur sem best undir nám og starf í nútímaþjóðfélagi þar sem alþjóðasamskipti aukast stöðugt og síauknar kröfur eru gerðar til fólks um góða tungumálafærni.
|
- Í skólastarfinu er lögð áhersla á heilbrigðan lífsstíl. Skólinn tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem byggir á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, bæði nemenda og starfsfólks. Jafnframt hefur skólinn hrundið af stað verkefninu Heilsumarkmiðin mín sem allir nýnemar skólans taka þátt í. Verkefnið snýst um að fræða nemendur um gildi hreyfingar, góðrar næringar, nægilegs svefns og geðræktar og hvetja þá til að setja sér markmið varðandi þessa þætti.
- Í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta eru tvær námsgreinar sem fjalla sérstaklega um heilbrigði en það eru íþróttir og lífsleikni. Í íþróttum gefst nemendum tækifæri til líkamsræktar auk þess sem þeir fá fræðslu um ýmsa aðra þætti tengda heilbrigðum lífsstíl. Í lífsleikni er fjallað um geðrækt, forvarnir og gildi þess að lifa heilsusamlegu lífi.
|
- Rík áhersla er lögð á læsi, tjáningu og samskipti á íslensku í skólastarfinu öllu enda er góð færni í íslensku undirstaða farsældar í áframhaldandi námi og starfi. Nám í öllum námsgreinum reynir tjáningu og samskipti, hvort sem um er að ræða hóp- eða einstaklingsverkefni, munnleg verkefni eða skrifleg. Læsi er þáttur í öllum námsgreinum þótt í mismiklum mæli sé.
- Mest reynir á þessa þætti í íslensku og í þverfaglega áfanganum listir, menning og vísindi en þessar námsgreinar eru í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta. Þar er stefnt að því að því að efla færni nemenda í ritun og munnlegri tjáningu auk þess sem stefnt er að því að auka leshraða nemenda og bæta lesskilning. Jafnframt reynir verulega á þessa þætti í sögu og samfélagsgreinum. Allar aðrar námsgreinar reyna þó einnig á þessa þætti að einhverju marki. Stefnt er að því að eftir því sem námi vindur fram verði mál nemenda blæbrigðaríkara og orðaforði fjölbreyttari.
|
- Eitt af einkunnarorðum skólans er samvinna. Í menntasýn skólans kemur fram að með hugtakinu samvinna sé átt við eftirfarandi atriði:
- „Að þjálfa nemendur í lýðræðislegu starfi og lýðræðislegri hugsun, að þroska með nemendum hæfileikann til þess að setja sig í spor annarra og bera virðingu fyrir ólíkum viðhorfum, og sýna umburðarlyndi, skilning og þolinmæði í samskiptum við aðra.“
- Ennfremur „að vinna með nærsamfélagi skólans að því að þroska grenndarvitund nemenda og stuðla með þeim hætti að því að nemendur öðlist dýpri þekkingu og skilning á nærsamfélagi sínu og því umhverfi sem þeir eru hluti af“.
- Reglulega er leitað eftir viðhorfum nemenda í þeim tilgangi að efla lýðræðisvitund þeirra og bæta skólastarf. Á hverri önn er kennslukönnun lögð fyrir nemendur þar sem þeir láta í ljós álit sitt á skipulagi og innihaldi áfanga, námsefni og kennsluháttum. Niðurstöður þessarar könnunar eru notaðar til að bæta það sem betur má fara í skólastarfinu. Á hverju skólaári er haldinn skólafundur þar sem nemendur fá tækifæri til að tjá sig um ýmis málefni, s.s. skólastarf, félagslíf o.fl. Við skólann starfar nemendaráð og kjósa nemendur fulltrúa í stjórn þess á hverju ári. Nemendaráðið annast skipulagningu félagslífs í skólanum og vinnur náið með stjórnendum skólans. Jafnframt má geta þess að nemendur eiga fulltrúa í skólaráði og skólanefnd og leggja þannig sitt af mörkum við stjórnun skólans.
- Þær námsgreinar í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta sem fjalla sérstaklega um lýðræði og mannréttindi eru lífsleikni, listir, menning og vísindi og saga. Í þessum námsgreinum fá nemendur fræðslu um réttindi sín og skyldur sem þjóðfélagsþegnar auk þess sem fjallað er um sögu lýðræðis og mannréttinda og nemendur eru látnir glíma við ýmis siðferðileg álitamál. Í íslensku og fleiri námsgreinum sem fjalla um bókmenntir er jafnframt komið inn á lýðræði og mannréttindi út frá bókmenntafræðilegu sjónarmiði.
|
- Í skólanum er unnið eftir jafnréttisstefnu en markmið hennar er „... að stuðla að jafnrétti kynja í skólanum, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans, ennfremur að minna stjórnendur, nemendur og starfslið skólans á mikilvægi þess að allir fái notið hæfileika sinna án tillits til aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis, þjóðernis eða annarra þátta sem kunna að greina einn einstakling frá öðrum“.
- Í menntasýn skólans kemur fram að í skólanum sé lögð áhersla á að „...nemendur öðlist dýpri skilning á hugtökum á borð við frelsi, jafnrétti og systkinalag með því að þeir fái frelsi til að tjá skoðanir sínar og taka ákvarðanir um nám sitt, hafi jöfn tækifæri til þátttöku og áhrifa án tillits til félags- og efnahagslegrar stöðu, hæfni, reynslu, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, trúarafstöðu, kynþáttar eða þjóðernis. Að nemendur efli samskiptahæfni sína með því að vinna með öðrum að fjölbreyttum viðfangsefnum, læri að leysa úr ágreiningi, vinni gegn mismunun og einelti, öðlist meiri sjálfsaga og taki ábyrgð á eigin gerðum“.
- Í skólanum starfar jafnréttisfulltrúi sem fylgist með því að jafnréttisstefnu sé fylgt.
- Þær námsgreinar í sameiginlegum kjarna stúdentsbrauta sem fjalla sérstaklega um jafnrétti eru lífsleikni, listir, menning og vísindi og saga. Í framangreindum námsgreinum er fjallað um hinar ýmsu hliðar jafnréttishugtaksins, þróun jafnréttisumræðunnar og áhrif hennar á líf einstaklinga. Jafnframt má nefna námsgreinina íslensku þar sem fjallað er um jafnrétti út frá bókmenntafræðilegu sjónarhorni og á það raunar einnig við um ensku og aðrar námsgreinar þar sem bókmenntafræðileg umræða fer fram.
|