Námsbraut

Titill brautar: Námsleið: Námslok:
Listnámsbraut (Staðfestingarnúmer 139) 15-139-3-7 stúdent hæfniþrep 3
Lýsing: Nám á listnámsbraut veitir grunnmenntun í fjölbreyttum greinum myndlistar. Stúdentspróf af brautinni býr nemandann undir háskólanám í list- og hönnunargreinum og jafnframt flestum greinum hug- og félagsvísinda. Nám á listnámsbraut veitir ennfremur góðan almennan undirbúning undir störf á breiðu sviði. Á sviði lista- og menningar liggja ýmis tækifæri til framþróunar en skapandi greinar skipa stöðugt veigameiri sess í atvinnulífinu.

Grunnupplýsingar Meginatriði brautarlýsingar

Inntökuskilyrði: Inntökuskilyrði í skólann eru 60 framhaldsskólaeiningar, þar af 30 skilgreindar einingar á öðru þrepi; 10 í íslensku, 10 í ensku, 5 í dönsku og 5 í stærðfræði og minnst 30 einingar í tungumálum, hugvísindum eða raungreinum. Hafa þarf í huga skilyrði aðalnámskrár um samsetningu áfanga með hliðsjón af hæfniþrepi. Að auki þreyta umsækjendur inntökupróf. Inntökunefnd á vegum skólans fer yfir umsóknir og metur árangur á inntökuprófi.
Skipulag: Nám til stúdenstprófs af listnámsbraut er 200 einingar þar sem nemandi tileinkar sér hæfni á þriðja þrepi. Við skólann eru teknar 140 einingar á tveimur árum (sbr. kaflann um inntökuskilyrði) en miðað er við að nemandi í fullu námi ljúki 35 einingum á önn. Námið skiptist í kjarna og brautarkjarna, auk þess sem nemendur taka 1 einingu í heilsurækt á hvorri önn á fyrra námsári. Kjarninn samanstendur af áföngum sem nemendur á öllum stúdentsbrautum taka en brautarkjarninn er sérkennandi fyrir listnámsbrautina og er alhliða grunnnám í myndlist. Námið er að stórum hluta verklegt og viðfangsefni nemenda í bóklegum greinum tekur mið af myndlist og hönnun. Áfangar eru ýmist kenndir reglubundið yfir önnina eða í samfelldum 1-6 eininga námslotum.
Námsmat Námsmat tekur mið af þeim námsmarkmiðum sem sett eru fram í áfangalýsingu. Í kennslulýsingu er kveðið á um verkefnaskil og með hvaða hætti mat verður lagt á vinnu nemenda í áfanganum. Umgjörð námsmats er útfærð í skólanámskrá en námsmat við skólann byggir á símati með áherslu á fjölbreyttar matsleiðir til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Í verklegu námi tekur matið í senn til hæfni nemenda í viðkomandi grein og getu þeirra til að tjá sig og fjalla um viðfangsefnið skriflega, munnlega eða með öðrum hætti. Auk einkunnar fá nemendur leiðbeinandi umsögn við lok flestra áfanga. Í samráði við námsráðgjafa eru fundnar leiðir til úrlausnar verkefna fyrir nemendur sem greindir hafa verið með tiltekna námsörðugleika.
Starfsnám:
Reglur um námsframvindu: Til að ljúka áfanga þarf nemandi að fá einkunnina 5. Nánar er kveðið á um námsframvindu og ástundun í skólanámskrá.
Hæfniviðmið:

Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • gera sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni
  • taka þátt í lýðræðislegri samræðu og samstarfi
  • efla eigin sjálfsmynd og nýta styrkleika sína
  • beita þekkingu sinni á fjölbreyttum aðferðum til myndsköpunar
  • nýta ímyndunarafl, innsæi og tilfinningar við sköpun verka
  • þróa hugmyndir og útfæra verk á sjálfstæðan og áræðinn hátt
  • beita þekkingu sinni á íslenskri og erlendri menningarsögu
  • skipuleggja verkferli í listsköpun sinni með sjálfstæðum og ábyrgum hætti
  • tjá sig á skýran, ábyrgan og gagnrýninn hátt um eigin verk og annarra
  • gera sér grein fyrir fagurfræðilegu, siðferðilegu og samfélagslegu hlutverki listamannsins
  • meta styrk sinn og koma auga á gildi menntunar sinnar
  • taka þátt í upplýstri umræðu um ýmis mál er tengjast samspili menningar, lista og samfélags

Einingafjöldi Fjöldi framhaldsskólaeininga sem þarf til að útskrifast af brautinni

200  fein.

Kjarni Skylduáfangar brautarinnar


Námsgrein
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
fein.
Hlutfall eininga á þrepum í kjarna
Þrep 1
Þrep 2
Þrep 3
Þrep 4
 
 
 
 

Frjálst Val Aðrir óskilgreindir áfangar sem nemendur geta valið/metið á námsbrautinni

Lýsing: Hafa þarf í huga skilyrði aðalnámskrár um samsetningu áfanga með hliðsjón af hæfniþrepi.

Grunnþættir og lykilhæfni Hvernig unnið er með grunnþætti og lykilhæfni

Læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar:
  • Myndlæsi er lykilatriði í náminu en vinna með myndræna þætti er meginþáttur í öllum verklegum áföngum og ríkur þáttur í bóklegum áföngum.
  • Nemendur vinna með margskonar tölulegar upplýsingar í verklegu listnámi sínu við skólann. Í teikningu er unnið mikið með stærðir, hlutföll og mælingar. Í litafræði er m.a. unnið með hlutföll lita í litablöndum. Í formfræði er unnið með hlutföll og skala í uppbyggingu tví- og þrívíðra verka. Ýmist er unnið af mikilli nákvæmni með þessar upplýsingar, t.d. í vinnu með litaskala og módel en stundum er unnið frjálslega út frá staðreyndum og ríkari áhersla lögð á sköpun og túlkun, t.d. í skissuvinnu.
  • Í listasögu, margmiðlun og menningarlæsi vinna nemendur á fjölbreyttan hátt með margvíslegar tölulegar upplýsingar.
  • Í lokaverkefni reynir á að nemendur séu læsir á upplýsingar frá ólíkum miðlum, geti nýtt sér margvíslega tækni í upplýsingaleit, geti aflað gagna, flokkað þau og nýtt á gagnrýninn hátt.
  • Nemendur vinna með stærðir og tölur í stærðfræðiáföngum brautarinnar. Áhersla er lögð á nemendur geri skýra grein fyrir hvernig þeir túlka, skilja og lesa í stærðfræðilegar upplýsingar.
  • Nemendur kynna verk sín fyrir samnemendum og kennurum í lok hvers áfanga og fá þannig reglulega þjálfun í tjáningu.
Námshæfni:
  • Nám á listnámsbraut er góður undirbúningur fyrir fjölbreytt framhaldsnám en þó er meginmarkmiðið með brautinni að búa nemendur sem best undir frekara nám á sviði myndlistar og hönnunar. Verklegt nám á brautinni miðar að því að gera nemendur færa um að takast á við verklegt nám í listaháskóla. Bóklegt nám tekur mið af verklegum greinum en markmiðið er að styrkja nemandann enn frekar á því sviði. Í margmiðlun er nemendum kennt að taka ljósmyndir af tví- og þrívíðum verkum. Í möppugerð gera nemendur ferilmöppu og skrifa umsókn um nám í listaháskóla.
  • Í skólanum er markvisst unnið að því að efla sjálfstæði nemenda í vinnubrögðum. Áföngum lýkur ávallt með yfirferð þar sem nemendur gera grein fyrir hugmynd og vinnuferli. Þátttaka í umræðum um verk félaganna er mjög mikilvæg. Þannig læra nemendur að meta eigin vinnubrögð og annarra með sjálfsmati og jafningjamati og að gagnrýna á ábyrgan hátt. Kennslu- og námsaðferðir eru fjölbreyttar og reyna á ýmsa hæfni. Jöfnum höndum er unnið að því að kynna nýja þekkingu fyrir nemendum og að gefa þeim kost á að vinna með efni og hugmyndir sem þeir þekkja vel. Það er m.a. gert með því að nemendur fá að velja sér viðfangsefni í lokaverkefnum verklegra áfanga. Eftir því sem lengra líður á námið eru gerðar meiri kröfur um sjálfstæði í vinnubrögðum og að nemendur nýti þekkingu sína og fyrri námsreynslu við lausn nýrra viðfangsefna.
  • Í öllum áföngum þurfa nemendur að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og takast á við ýmsar áskoranir. Nemendur þurfa stöðugt að meta eigið vinnuframlag og læra þannig að þekkja styrkleika sína og veikleika og að setja sér raunhæf markmið. Í listrænni vinnu er sjaldnast eitt rétt svar. Því er viðmið hvers nemanda hans eigin verk og markmiðið að bæta eigin frammistöðu í stað þess að miða sig við félagana.
  • Í íslensku, ensku, listasögu og menningarlæsi er rík áhersla lögð á að nemendur fái þjálfun í að skrifa og byggja upp læsilegan texta, meta gildi og áreiðanleika heimilda og tengja tilvitnanir eigin umfjöllun og leggja út af þeim.
  • Í lokaverkefni velja nemendur sér viðfangsefni og skipuleggja í samráði við leiðbeinanda. Lokaverkið er sett fram á opinberri sýningu á vegum skólans. Það leggur mikla ábyrgð á herðar nemenda sem þurfa að sýna sjálfstæð og skapandi vinnubrögð og setja fram raunhæfa tímaáætlun. Uppsetning sýningarinnar og utanumhald er sömuleiðis ábyrgðarstarf en á sýningunni koma nemendur fram sem fulltrúar skólans út á við. Nemendur þurfa að geta lagt mat á eigið vinnuframlag og þróað verkefni sín samkvæmt endurgjöf leiðbeinanda.
Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar:
  • Í öllum námsgreinum reynir á frumkvæði og skapandi hugsun en sköpun er rauði þráðurinn í öllum áföngum, bæði verklegum og bóklegum. Nemendur þurfa í öllum áföngum að nýta sköpunargáfu sína í fjölbreyttri verkefnavinnu og kynningu á niðurstöðum sínum.
  • Í stærðfræði vinna nemendur myndverk þar sem í senn reynir á sköpunargáfu þeirra, skilning á stærðfræðinámsefni áfangans og þekkingu á listamönnum sem vinna í sniðmengi listar og vísinda.
  • Í íslensku, listasögu og ensku vinna nemendur fjölbreytt verkefni, gera t.d. myndverk og fremja gjörninga út frá verkum ákveðinna listamanna eða listastefnum sem fjallað er um og myndskreyta eða leika lesið efni.
  • Í íslenskuáfanganum skapandi skrif er lögð áhersla á leik og frelsi til sköpunar í meðferð tungumálsins.
  • Í upphafi verklegra áfanga vinnur nemandinn að nokkuð skýrt tilgreindum verkefnum sem er ætlað að dýpka skilning hans á viðfangsefninu og þjálfa ákveðna tækni. Eftir því sem leikni nemandans eykst reynir meira á hugmyndaauðgi og frumkvæði.
  • Verklegum áföngum lýkur á mjög krefjandi og skapandi vinnu þar sem nemendur velja sjálfir sitt viðfangsefni en hagnýta í vinnu sinni þá verklegu þekkingu og beita þeirri tækni/þeim miðli sem áfanginn hverfist um.
  • Lokaverkefni reynir verulega á hæfni nemenda til að samþætta skapandi hugsun og þá verklegu og tæknilegu þekkingu sem þeir hafa öðlast en í áfanganum vinna nemendur sjálfstætt myndverk til opinberrar sýningar, allt frá frumskissu til fullmótaðs listaverks.
Menntun til sjálfbærni:
  • Unnið er að því að nemendur verði virkir og ábyrgir borgarar bæði gagnvart samfélaginu og umhverfi sínu. Skólinn hefur verið þátttakandi í grænfána verkefni Landverndar. Í öllu skólastarfinu er lögð áhersla á sjálfbærni og sjálfbæra hugsun. Allt sorp er flokkað og nemendur eru eindregið hvattir til að nýta allt efni sem best.
  • Í verkstæðisáföngum er sérstök áhersla lögð á að kynna fyrir nemendum hvernig lágmarka má umhverfisáhrif af þeim efnum sem unnið er með, ýmist með endurnýtingu eða frágangi á sorpi.
  • Virðing fyrir samnemendum, kennurum og öðrum er mikilvægur þáttur í daglegu skólastarfi. Í yfirferð þegar fjallað er á gagnrýninn hátt um verkefni nemenda er lögð rík áhersla á að nemendur átti sig á muninum á niðurrifi og uppbyggilegri gagnrýni.
Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum:
  • Í kjarna brautarinnar fá nemendur þjálfun í tveimur erlendum tungumálum, ensku og Norðurlandamáli. Áður en nemendur hefja nám í sjónlistadeild er ætlast til að þeir hafi lokið stúdentsprófi í Norðurlandamáli.
  • Í enskunámi eru nemendur þjálfaðir í lestri og að tjá sig í ræðu og riti. Með aukinni þjálfun verður mál þeirra blæbrigðaríkara og orðaforði meiri og fjölbreyttari. Sérstök áhersla er lögð á orðaforða sem tengist myndlist, hönnun og menningu. Nemendur lesa texta, hlusta og tjá sig, hvort sem er í umræðum, hópavinnu eða á fyrirlestum.
  • Stjórnendur skólans eru vakandi fyrir möguleikum á ýmis konar samstarfi, bæði innanlands og utan en skólinn leitast markvisst við að taka þátt í fjölbreyttum alþjóðlegum samskiptum, s.s. kennara- og nemendaskiptum til þess að auka víðsýni nemenda, efla skilning þeirra á mikilvægi tungumálakunnáttu og veita þeim innsýn í líf og störf fólks erlendis. Viðfangsefni námsferða getur tengst mismunandi áföngum, t.d. tungumáli, menningarlæsi, listasögu eða verklegum námi.
Heilbrigði:
  • Í skólastarfinu er lögð áhersla á heilsusamlegan lífsstíl m.a. í tengslum við næringu, og hreyfingu. Gengið er út frá því að nemendur beri ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum.
  • Í íþróttum er unnið að því að auka andlegan og líkamlegan styrk nemenda til að takast á við áskoranir daglegs lífs og auka lífsgæði. Nemendur öðlast hæfni til að nýta sér þekkingu sína meðal annars til að takmarka kyrrsetu, bæta einbeitingu, auka hreyfingu á einfaldan og ódýran hátt og flétta líkams- og heilsurækt inn í daglegt líf.
  • Nemendur hafa aðgang að eldhúsi og matsal í skólanum. Þar geta þeir geymt nesti sitt í kæliskáp og þar eru tæki til að hita upp mat, rista brauð og annað.
  • Nemendur bera ábyrgð á þrifum á mataraðstöðu sinni og er fylgst með því að þar sé gætt fyllsta hreinlætis og að umgengni sé til fyrirmyndar.
Læsi, tjáning og samskipti á íslensku:
  • Í öllum áföngum vinna nemendur verkefni sem reyna á samskiptahæfni og tjáningu bæði í rituðu og töluðu máli. Nemendur þurfa að geta svarað spurningum málefnalega og rökstutt skoðanir sínar og niðurstöður. Viðfangsefni nemenda eru oftar en ekki mjög huglæg og því er mikilvæg áskorun fólgin í að skerpa hugsunina og setja hana fram á skýran og skilmerkilegan hátt.
  • Í íslenskuáföngum þurfa nemendur að gera grein fyrir þekkingu sinni og skoðunum og taka þátt í samræðum. Ennfremur vinna nemendur mikið með ritað mál. Með aukinni þjálfun verður mál þeirra blæbrigðaríkara, orðaforði fjölbreyttari og málskilningur dýpri.
  • Í menningarlæsi fá nemendur mikla þjálfun í að tjá eigin skoðanir þar sem umræður og hópverkefni eru ríkur þáttur í náminu.
  • Í listasögu fá nemendur mikilvæga þjálfun í að tjá sig með hugtökum og orðaforða listfræðinnar en hann er talsvert frábrugðinn hversdagslegu máli.
Lýðræði og mannréttindi:
  • Allt nám við skólann miðar að því að gera nemendur að virkum og ábyrgum þátttakendum í lýðræðissamfélagi með því að hvetja þau til að mynda sér skoðun og deila henni í umræðum.
  • Leitað er eftir viðhorfum nemenda til ákveðinna þátta í þeim tilgangi að bæta skólastarfið. Í lok hvers áfanga er nemendum boðið að fylla út kennslumatskönnun þar sem þeir fá tækifæri til að láta í ljós álit sitt á skipulagi og innihaldi áfanga, námsefni og kennsluháttum. Niðurstöðurnar eru notaðar til þess að bæta það sem betur má fara.
  • Nemendafélag starfar innan skólans. Nemendur eiga fulltrúa í skólaráði og skólanefnd og leggja þannig sitt af mörkum við stjórnun skólans. Nemendur hafa ávallt greiðan aðgang að stjórnendum skólans og geta auðveldlega komið sjónarmiðum sínum á framfæri
  • Nemendur eru hvattir til umburðarlyndis og virðingar fyrir mismunandi lífsgildum.
Jafnrétti:
  • Áhersla er lögð á jafnrétti í öllu starfi skólans og jafnrétti endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag.
  • Jafnréttisstefna sem birt er á vef skólans hljóðar svo: Skólinn hefur jafnrétti í heiðri og brýnir fyrir nemendum og starfsfólki að jafnrétti skuli ríkja, hvort sem er jafnrétti kynja, jafnrétti einstaklinga eftir trú, kynhneigð, stétt, aldri, kynþætti og litarhætti eða jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra. Umburðarlyndi og víðsýni eru gildi skólans og grannt er fylgst með því að nemendur og starfsmenn virði þau.
  • Nemendur fá fræðslu um jafnréttismál og er bent á leiðir til að koma auga á og vinna gegn hvers konar misrétti.
  • Við inntöku nemenda í skólann er vandlega hugað að jafnrétti í víðum skilningi. Nemendur í hinum ýmsu deildum skólans eru á öllum aldri, fullorðnir og börn, með ólíkan bakgrunn og af ýmsu þjóðerni, ófatlaðir, líkamlega fatlaðir og fólk með þroskahömlun. Stuðlað er að opnum samskiptum innan skólans til að auka víðsýni og umburðarlyndi, m.a. með heimsóknum milli deilda og sameiginlegum sýningum ólíkra hópa.
  • Í verklegu námi er gætt að samþættingu kynjasjónarmiða í kennslu og stuðlað að sjálfsvirðingu og sjálfstæði beggja kynja. Áhersla er lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og kennsluefni til að mæta ólíkum þörfum og áhuga nemenda og þess er gætt að vitna í heimildir sérfræðinga af báðum kynjum eftir því sem tök eru á.
  • Í listasögu er þess gætt að nemendur kynnist verkum listamanna af báðum kynjum og ólíkum kynþáttum. Nemendur skoða list frá öllum heimshlutum.
  • Í menningarlæsi er lögð áhersla á að nemendur kynnist sem fjölbreyttustum sjónarmiðum lista- og fræðimanna og fái innsýn í mismunandi samfélög.
  • Í áfanga um náms- og starfsumhverfi eru nemendur hvattir til að draga menningarbundin hlutverk í efa með því að kanna fjölbreyttar náms- og starfsleiðir.