14

Framhaldsskólar eru ýmist sjálfstæðar ríkisstofnanir eða einkaskólar. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði ráðherra eða ábyrgðaraðila einkaskóla, í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á skuldbindingu framhaldsskóla um þjónustu við nemendur. Framhaldsskólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjónar, námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir.

Framhaldsskólar skulu setja fram skýrar verklagsreglur um réttindi og skyldur skóla og nemenda. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hér fram ýmsar reglur sem auðvelda eiga skólum að taka á álitamálum sem varða réttindi, skyldur og þjónustu við nemendur. Sumar þessara reglna eru einnig birtar í lögum og reglugerðum og er þá vísað í þær.