Mat og eftirlit sveitarfélaga
Skólanefnd skal í umboði sveitarstjórnar hafa eftirlit með því að skólastarf í grunnskólum samræmist grunnskólalögum, reglugerðum og aðalnámskrá grunnskóla. Þetta á bæði við um þá skóla sem reknir eru af sveitarfélaginu og þá sem reknir eru af öðrum aðilum. Skólanefnd ber ábyrgð á að skólastarf sé metið með hliðsjón af aðstæðum og sérstöðu hvers skóla. Við matið má styðjast við margs konar upplýsingar. Þar má t.d. benda á upplýsingar um innra mat, mat á skólanámskrá og starfsáætlun skóla, framkvæmd skólastefnu sveitarfélagsins, tölulegar upplýsingar og önnur gögn eftir því sem við á. Skólanefnd ber einnig ábyrgð á því að grunnskólinn meti innra starf sitt með markvissum hætti. Mikilvægt er að skólanefnd fylgi því eftir að niðurstöður innra mats skólans stuðli að auknum gæðum og bættum árangri í öllu starfi hans.
Sveitarstjórn ber að tryggja að upplýsingum um skólastarf sé miðlað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, starfsfólks skóla, foreldra og nemenda. Sveitarstjórn skal einnig miðla viðeigandi upplýsingum innan sveitarfélags um úttektir og kannanir á starfsemi skóla.
Niðurstöðum úttekta og kannana skal fylgt eftir með markvissum hætti en eftirfylgni tekur mið af viðfangsefni og niðurstöðum.
Mat og eftirlit mennta- og menningarmálaráðuneytis
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög um grunnskóla, reglugerðir og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Reglubundið ytra mat ráðuneytisins felst í úttektum, könnunum og rannsóknum ásamt almennri öflun, greiningu og miðlun upplýsinga. Ráðuneytið gerir áætlun til þriggja ára um ytra mat, kannanir og úttektir, sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd skólahalds í grunnskólum.
Niðurstöður allra kannana og úttekta eru birtar á vef ráðuneytisins. Þar verða einnig birtar greinargerðir og umbótaáætlanir sveitarstjórna sem byggðar eru á niðurstöðum ytra mats. Áhersla er lögð á að kanna hvort skólastarfið samræmist ákvæðum laga og reglugerða og þeim markmiðum sem sveitarfélög og einstaka skólar hafa sett sér. Niðurstöðum ber að fylgja eftir og tekur eftirfylgni ráðuneytisins mið af niðurstöðum hverju sinni.
Comments:
|