13

Mikilvægt er að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag sem felur í sér gagnkvæmt traust, virðingu og samábyrgð þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigðar og hollar lífsvenjur eru hafðar að leiðarljósi.

  • Hér er fjallað um ábyrgð nemenda og skyldur en þessi hugtök eru nátengd. Ekki er hægt að fjalla um skyldur nemenda án þess að fjalla jafnframt um ábyrgð. Réttindum fylgja skyldur og ábyrgð fylgir hvoru tveggja. Bæði er um að ræða einstaklingsábyrgð og samábyrgð. Hér er bæði átt við að nemandinn sem einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum annars vegar og hins vegar samábyrgð þar sem hann er hluti af hópi/samfélagi og er þar með samábyrgur öðrum í hópnum/samfélaginu.

    • Áhersla er lögð á að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin námi og venji sig sem fyrst á gott vinnulag. Ábyrgðarkennd nemenda þroskast eftir því sem þeim gefst kostur á að velja viðfangsefni og taka ákvarðanir um eigið nám þannig að það verði þeim merkingarbært. Það geta þeir gert innan þeirra marka sem aldur þeirra og þroski leyfir. Ætlast er til að nemendur í grunnskóla taki slíkar ákvarðanir, allt frá byrjun skólagöngu. Ábyrgð vex því aðeins að nemendur venjist á að taka ákvarðanir og standa við þær, bæði ákvarðanir sem nemandinn tekur einn og í samráði við aðra. Sama á við um námsaðferðir sem þeir temja sér en nauðsynlegt er að nemendur eigi sem mest val um þær á öllum aldri. Nemendur skulu eiga möguleika á að beita mismunandi aðferðum við nám sitt og þjálfast jöfnum höndum í að vinna upp á eigin spýtur og í samstarfi við aðra. Það gera þeir með því að velja um viðfangsefni innan þeirra marka sem opinber markmið námsins setja í einstökum námsgreinum og námssviðum, hvort sem þau er að finna í aðalnámskrá eða í skólanámskrá viðkomandi skóla. Þá eiga nemendur samkvæmt grunnskólalögum og viðmiðunarstundaskrá val um námsgreinar og námssvið, einkum á unglingastigi.