13

Mikilvægt er að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag sem felur í sér gagnkvæmt traust, virðingu og samábyrgð þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigðar og hollar lífsvenjur eru hafðar að leiðarljósi.

  • Hér er fjallað um ábyrgð nemenda og skyldur en þessi hugtök eru nátengd. Ekki er hægt að fjalla um skyldur nemenda án þess að fjalla jafnframt um ábyrgð. Réttindum fylgja skyldur og ábyrgð fylgir hvoru tveggja. Bæði er um að ræða einstaklingsábyrgð og samábyrgð. Hér er bæði átt við að nemandinn sem einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum annars vegar og hins vegar samábyrgð þar sem hann er hluti af hópi/samfélagi og er þar með samábyrgur öðrum í hópnum/samfélaginu.

    • Nemendur eiga að geta tjáð sig um hvaðeina sem fram fer í skólanum hvort sem það snertir nám þeirra, líðan, aðbúnað eða félagslegar aðstæður. Réttmætt er að tekið sé tillit til skoðana þeirra allt eftir aldri og þroska og eðli máls.

      Nemendafélag er mikilvægur vettvangur fyrir nemendur allt frá upphafi grunnskólans til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og til að vinna að hagsmunamálum sínum. Nemendur eiga fulltrúa í skólaráði og mikilvægt er að þeir leiti eftir sjónarmiðum samnemenda og hafi tækifæri til að fylgja eftir hagsmunamálum þeirra í skólaráðinu. Miða þarf starfshætti í skólaráði við að nemendur geti tekið virkan þátt í starfi þess.