Áfanginn fjallar um lífræn efni, flokkun þeirra og nöfn skv. IUPAC-nafnakerfinu. Lögð er áhersla á efnafræði kolefnis og kolefnissambanda, gerð og eðli tengja í lífrænum efnum og áhrif þrívíddarbyggingar sameinda á eðli og eiginleika lífrænna efna. Lýst er helstu tegundum efnahvarfa og hagnýtingu þeirra við efnasmíðar, þ.e. hvernig einu lífrænu efni er breytt í annað. Lögð er áhersla á ábyrga umgengni við efni og áhöld í tilraunastofu, undirbúning og framkvæmd tilrauna, úrvinnslu þeirra og framsetningu niðurstaðna. Lagt er upp úr samvinnu nemenda, en einnig sjálfstæði þeirra og ábyrgð á eigin námsframvindu.
Undanfari er EFNA2BB05
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
Flokkun lífrænna efna á grundvelli virkra einkennishópa.
Undirstöðureglum IUPAC-nafnakerfisins og hvernig því er beitt.
Mismunandi svigrúmablöndun kolefnis og tengsl svigrúmablöndunar við þrívíddarlögun lífrænna sameinda.
Eðli, eiginleikum og hvarfgirni tengja í lífrænum efnum.
Helstu tegundum efnahvarfa meðal lífrænna efna og hvarfgangi þeirra.
Undirstöðuatriðum lífrænna efnasmíða.
Reglum um umgengni við efni og áhöld í tilraunastofu.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
Flokka og nafngreina lífræn efni.
Greina þrívíddarlögun lífrænna sameinda og áhrif hennar á eðli og eiginleika efnanna.
Greina skautun tengja og myndun óstöðugra milliefna í þrepahvörfum.
Framkvæma tilraunir skv. verklýsingu, vinna úr niðurstöðum og skrifa formlegar og nokkuð ítarlegar skýrslur.
Nota töflureikni við úrvinnslu gagna, töflur og línurit.
Beita undirstöðuþekkingu sinni til að lýsa því hvernig hægt er að breyta einu lífrænu efni í annað.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
Skilja merkingu og tengsl hugtaka í námsefninu og geta beitt þeim í umræðum og skriflegum verkefnum.
Setja úrlausnir sínar skýrt og skipulega fram og beita táknmáli lífrænu efnafræðinnar rétt.
Sækja sér gagnlegar upplýsingar og ítarefni af netinu eða í aðrar uppsprettur.
Tengja námsefni áfangans við umhverfi sitt og daglegt líf þar sem lífræn efni gegna stóru hlutverki.
Gera sér grein fyrir og skilja mikilvægi lífrænna efnasmíða fyrir framþróun á sviði nútíma tækni á fjölmörgum sviðum , t.d. í lyfjaiðnaði, læknisfræði, lífefnafræði o.fl.
Sýna frumkvæði og sjálfstæði við undirbúning og framkvæmd tilrauna.
Umgangast efni og áhöld með virðingu og af ábyrgð með hliðsjón af eigin öryggi og annarra.
Takast á við háskólanám í greininni.
Námsmat byggir á: Verkefnum og tilraunum á önn. Áfanga lýkur með lokaprófi.