Framhaldsfræðsla

Lög nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu tóku gildi í október 2010 og reglugerð nr. 1163/2011 um framhaldsfræðslu tók gildi í nóvember 2011. Þar eru sett fram markmið og skilgreiningar á námi utan hins hefðbundna skólakerfis.

Í lögunum kemur fram að gerðar skulu námskrár eða námslýsingar þar sem markmiðum framhaldsfræðslu er lýst, skipulagi námsins og inntaki. Ráðherra veitir fræðsluaðilum viðurkenningu, sem byggir m.a. á mati á námskrám eða námslýsingum. Viðurkenningin felur í sér að fræðsluaðili uppfyllir skilyrði laganna og reglugerðar á þeim tíma.

Vottun ráðuneytis á námskrám framhaldsfræðsluaðila, á að tryggja gæði og gegnsæi námstilboða í framhaldsfræðslu og staðfesta að námið uppfylli kröfur, bæði almennar s.s. skipulag námsins og sértækar s.s. varðandi inntak náms og hæfni nemenda.

Í reglugerð um framhaldsfræðslu koma fram þau viðmið sem nota á við gerð námskráa, en þær eiga að fela í sér a.m.k. 40 klukkustunda vinnu námsmanns. Í námskrám á að vera lýsing á tilgangi námsins, forsendum þess og hverjum námið er ætlað. Skipulag námsins, umfang og uppbygging ásamt lýsingu á námsmati. Þá þarf að skilgreina í námskrá þá þekkingu, leikni og hæfni sem námsmaður á að búa yfir að námi loknu og stöðu hans að námi loknu s.s. varðandi áframhaldandi nám.

Mennta- og menningarmálaráðherra setur gæðaviðmið um gerð og uppbyggingu námskráa í framhaldsfræðslu og vottar einstakar námskrár á grundvelli þeirra. Viðmið um gerð námskráa í framhaldsfræðslu voru gefin út 2013 og þarf framsetning námskráa að fara eftir þessum viðmiðum og vera í samræmi við uppbyggingu námskrárgrunns.

Leiðbeiningar: Handbók við námskrárgerð fyrir framhaldsfræðsluaðila