Framhaldsskólar

Í nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla er m.a. fjallað um inntak og skipulag náms og kennslu. Í aðalnámskrá er öllu námi í framhaldsskóla skipað á fjögur hæfniþrep sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Með þrepunum er lýst stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar menntunar. Námslok námsbrauta eru tengd við hæfniþrep. Lokamarkmið námsbrauta kallast hæfniviðmið og segja til um þá hæfni sem stefnt er að nemendur búi yfir við námslok. Við uppbyggingu námsbrauta skulu framhaldsskólar fylgja reglum ráðuneytis en þær birtast meðal annars í almennum hluta aðalnámskrár.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008, færist ábyrgð á námskrárgerð í auknum mæli til framhaldsskólanna. Þeim er nú falið að gera tillögur um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms í samræmi við viðmið, sniðmát og reglur um gerð námsbrautarlýsinga. Með þessu fá einstakir framhaldsskólar aukið umboð til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skóla, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs. Þetta veitir skólum tækifæri til að bregðast markvisst við þörfum nemenda, samfélags og atvinnulífs, niðurstöðum rannsókna og gæðaeftirlits. Tillögur um námsbrautir þurfa staðfestingu ráðuneytis til að verða hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.


NÁMSKRÁRGRUNNUR FRAMHALDSSKÓLA

Námskrárgrunnur er lokað vinnusvæði fyrir framhaldsskóla. Þar geta notendur með réttindi samið áfangalýsingar og skipulagt námsbrautir.